Tímamót
FÖGNUM TILVERUNNI Á KROSSGÖTUM LÍFSINS
Fyrir hverja athöfn sest ég niður með ykkur og fæ að heyra ykkar persónulegu sögu. Afraksturinn úr því samtali verður svo aðaluppistaða athafnarinnar, sem verður því alveg einstök.
Gleði og húmor eru hornsteinninn í athöfnunum mínum. Lífið er skemmtilegt og þessi tímamót eiga að vera hamingjuríkar stundir sem koma fólki til að hlæja og gráta. Hvað er annars ekki fyndið við svaramanninn sem gleymir hringunum eða ungabarnið sem prumpar í miðri athöfn?
Athafnirnar mínar eru sjaldnast mjög alvarlegar, en þær eru hinsvegar alltaf hátíðlegar. Hátíðleikinn felst í hefðunum og þeirri virðingu sem við sýnum litla barninu eða ástfangna parinu með því að fagna með þeim.
Athafnirnar mínar eru trúarlega hlutlausar og henta því bæði trúlausum sem trúuðum, en meginkjarninn í boðskapnum er húmanísk lífssýn. Húmanistar aðhyllast vísindalega skynsemishyggju og tala fyrir frjálsri hugsun og siðrænu samfélagi.
Ég er skoðanaglöð og skemmtileg. Ég er skipulögð og óskipulögð. Ég er tónelsk og listhneigð og kann alla textana í RENT utan að. Ég stressast upp ef ég sé fram á að þurfa að labba heim hljóðbókarlaus. Ég er húmanisti.
***
Ég er týpan sem grenjar yfirfantasíubókum. Ég er samfélagsþenkjandi skáti sem brennur fyrir jafnaðarmennsku. Ég er húmanisti.
***
Ég er mamma hans Starra og ég er hinsegin. Ég er femínistinn sem tekur sjaldan niður kynjagleraugun. Ég er skapandi verkefnastjóri. Ég er athafnarstjóri og Siðmenntarformaður. Ég er húmanisti.
Allar athafnir sem ég stýri eru fyrir hönd Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á Íslandi. Það þýðir að allar athafnir eru bókaðar í gegnum Siðmennt og gjaldskráin mín fylgir gjaldskrá félagsins.
Lífsskoðunarfélagið Siðmennt var stofnað árið 1990 og byggir starf sitt á húmanískri lífssýn, með trúfrelsi, manngildi og mannréttindi sem sitt leiðarljós. Félagið þjónustar fólk á tímamótum lífsins og býður upp á giftingar, nafngjafir, fermingar og útfarir, ásamt því að standa fyrir viðburðum og halda úti húmanísku viðbragðsteymi.