Stefnuyfirlýsing húmanista
Við styðjumst við skynsemi og vísindi til að öðlast skilning á alheiminum og viðfangsefnum samfélagsins.
Við hörmum allar þær tilraunir sem í gangi eru til að gera sem minnst úr mannlegri skynsemi og leita í staðinn skýringa og björgunar í yfirnáttúrulegum fyrirbærum.
Við erum þeirrar skoðunar að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi.
Við styðjum opið, víðsýnt og fjölþætt samfélag og við teljum að lýðræði sé besti kosturinn til að vernda mannréttindi bæði gagnvart einræðissinnuðum forréttindahópum og umburðarlitlum fjöldahreyfingum.
Við styðjum aðskilnað ríkis og kirkju.
Við viljum efla listina að ná samkomulagi og sáttum og á þann hátt viljum við leysa ágreining og efla gagnkvæman skilning manna á meðal.
Við leitumst við að tryggja réttlæti og sanngirni og útrýma umburðarleysi og ofsóknum.
Við viljum hjálpa þeim sem eiga við fötlun eða sjúkdóma að stríða þannig að þau geti hjálpað sér sjálf.
Við reynum að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð og fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.
Við viljum standa vörð um verðmæti jarðarinnar og auka þau, að vernda þessi verðmæti fyrir kynslóðir framtíðarinnar og hindra allar óþarfa þjáningar annarra dýra.
Við viljum njóta lífsins sem við þekkjum núna og efla sköpunargáfu okkar sem allra mest.
Við viljum rækta sem best siðræn gildi okkar og okkar á meðal.
Við virðum réttinn til einkalífs. Fullorðið fólk á þar að hafa fullt frelsi til að velja og hafna, fylgja kynhneigð sinni að eigin vild, að eignast börn samkvæmt eigin ákvörðunum, að hafa aðgang að víðtækri og góðri heilbrigðisþjónustu og fá að deyja í reisn.
Við setjum traust okkar á almenn siðræn verðmæti: Tillitssemi, heiðarleika, drengskap, sannsögli, ábyrgð. Siðfræði húmanismans er ávallt lögð á mælistiku gagnrýnnar og upplýstrar hugsunar. Saman sköpum við tilteknar siðrænar reglur og við dæmum gildi þessara reglna eftir árangrinum.
Við leggjum mikla áherslu á siðmennt barna okkar. Við viljum efla skynsemi og samúð.
Við viljum efla listir engu minna en vísindi.
Við erum borgarar alheimsins og horfum með hrifningu á ný sannindi um eðli hans.
Við teljum að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti vantreystum við þeim.
Við erum þeirrar skoðunar að húmanisminn sé raunhæfur valkostur við trúarbrögð örvæntingar og hugmyndafræði ofbeldis. Húmanisminn er uppspretta ríkrar persónulegrar reynslu og ánægju við að hjálpa öðrum.
Við veljum bjartsýni en ekki svartsýni, von en ekki örvæntingu, lærdóm en ekki kreddur, sannleika en ekki fáfræði, gleði en ekki sekt eða synd, umburðarlyndi en ekki ótta, ást en ekki hatur, samúð en ekki eigingirni, fegurð en ekki ljótleika og skynsemi en ekki blinda trú eða afneitun rökréttrar hugsunar.
Í nafni manngildisins viljum við standa vörð um og rækta allt það göfugasta og besta sem við getum greint.
—
Hér er um að ræða þýðingu úr ensku á stefnuyfirlýsingu húmanista.
Gísli Gunnarsson sá um þýðinguna. Hann lagði áherslu á að ná meiningu upprunalega textans fremur en að þýða hann orðréttan.