Framboð til formanns
Ég ræktaði trú mína talsvert sem barn, en aðallega var trúrækni mín í tengslum við lítið framboð af æskulýðsstarfi á Álftanesi og trúhitinn kannski einna heitastur í páskabingóum þar sem ég laut ítrekað í lægra haldi fyrir heppni annarra. Það tengja vafalaust mörg ykkar við að hafa varið fermingarárinu í að velta fyrir ykkur til hvers þetta allt væri og hvort íslensk barnatrú ætti við ykkur. En að vera upplýst KFUK-stúlka í fermingarfræðslu var grundvöllur þess að ég gæti spurt spurninga sem prestarnir áttu erfitt með að svara – og eftir því sem á leið fermingarárið fór að hrikta í undirstöðum kristninnar í hjarta mínu. Ári eftir fermingu var ég svo með öllu trúlaus, þó vafalaust þekkti ég kristilegar kennisetningar og biblíulegar dæmisögur betur en meðaltáningurinn.
Síðan þá hef ég brunnið fyrir veraldlegu samfélagi. Samfélagi þar sem fullt trúfrelsi ríkir og fólk hefur fullt persónulegt frelsi til að velja þá leið sem því hentar í lífinu, án þess að þurfa að vera stöðugt í skugga ríkistrúar, mismununar og aðstöðumunar. Þessu hugðarefni mínu hef ég fundið farveg í Siðmennt – félagi siðrænna húmanista á Íslandi, sem að mínu mati hefur unnið ötullega að veraldlegu samfélagi jafnréttis, frelsis frá íþyngjandi og útilokandi hefðum og við útbreiðslu húmanísks boðskaps.
Nú stendur Siðmennt á tímamótum. Félagið hefur tífaldast á innan við áratug. Borgaraleg ferming er nú ekki fyrir jaðarhópa, heldur orðin nær algjörlega samfélagslega samþykkt ákvörðun unglinga. Athafnirnar okkar hljóta mikið lof og á hverju ári stækkar sá hópur sem velur þær fram yfir aðra valkosti. Félagið hefur áorkað miklu í vitundarvakningu og hagsmunabaráttu; mörg sveitarfélög leggjast gegn mismunun skólabarna á grundvelli trúar, lífsskoðunarfélög hljóta nú viðurkenningu í stjórnsýslunni og félagið hefur staðið fyrir mikilvægri umræðu um um húmanísk málefni, eins og tjáningarfrelsi, dánaraðstoð og baráttu gegn þjóðernishyggju.
Það er við þessi verkefni sem ég vil leggja hönd mína á plóg og býð mig því fram til embættis formanns Siðmenntar, sem kjörinn verður á aukaaðalfundi 24. apríl. Hér á eftir eru upplýsingar um mig og mín helstu stefnumál.