Framboð til formanns

Ég ræktaði trú mína talsvert sem barn, en aðallega var trúrækni mín í tengslum við lítið framboð af æskulýðsstarfi á Álftanesi og trúhitinn kannski einna heitastur í páskabingóum þar sem ég laut ítrekað í lægra haldi fyrir heppni annarra. Það tengja vafalaust mörg ykkar við að hafa varið fermingarárinu í að velta fyrir ykkur til hvers þetta allt væri og hvort íslensk barnatrú ætti við ykkur. En að vera upplýst KFUK-stúlka í fermingarfræðslu var grundvöllur þess að ég gæti spurt spurninga sem prestarnir áttu erfitt með að svara – og eftir því sem á leið fermingarárið fór að hrikta í undirstöðum kristninnar í hjarta mínu. Ári eftir fermingu var ég svo með öllu trúlaus, þó vafalaust þekkti ég kristilegar kennisetningar og biblíulegar dæmisögur betur en meðaltáningurinn.

Síðan þá hef ég brunnið fyrir veraldlegu samfélagi. Samfélagi þar sem fullt trúfrelsi ríkir og fólk hefur fullt persónulegt frelsi til að velja þá leið sem því hentar í lífinu, án þess að þurfa að vera stöðugt í skugga ríkistrúar, mismununar og aðstöðumunar. Þessu hugðarefni mínu hef ég fundið farveg í Siðmennt – félagi siðrænna húmanista á Íslandi, sem að mínu mati hefur unnið ötullega að veraldlegu samfélagi jafnréttis, frelsis frá íþyngjandi og útilokandi hefðum og við útbreiðslu húmanísks boðskaps.

Nú stendur Siðmennt á tímamótum. Félagið hefur tífaldast á innan við áratug.  Borgaraleg ferming er nú ekki fyrir jaðarhópa, heldur orðin nær algjörlega samfélagslega samþykkt ákvörðun unglinga.  Athafnirnar okkar hljóta mikið lof og á hverju ári stækkar sá hópur sem velur þær fram yfir aðra valkosti. Félagið hefur áorkað miklu í vitundarvakningu og hagsmunabaráttu; mörg sveitarfélög leggjast gegn mismunun skólabarna á grundvelli trúar, lífsskoðunarfélög hljóta nú viðurkenningu í stjórnsýslunni og félagið hefur staðið fyrir mikilvægri umræðu um um húmanísk málefni, eins og tjáningarfrelsi, dánaraðstoð og baráttu gegn þjóðernishyggju.

Það er við þessi verkefni sem ég vil leggja hönd mína á plóg og býð mig því fram til embættis formanns Siðmenntar, sem kjörinn verður á aukaaðalfundi 24. apríl.  Hér á eftir eru upplýsingar um mig og mín helstu stefnumál.

Lífsskoðunarfélag á tímamótum

Það má að mínu mati skipta kjarnastarfsemi Siðmenntar í þrjá flokka: Vettvangur fyrir húmaníska samræðu, hagsmunabarátta fyrir veraldlegt samfélag og þjónusta við fólk sem kýs veraldlegar aðferðir við að halda upp á stærstu tímamót í lífi sínu og fjölskyldunnar. Félagið var í raun stofnað utan um hið síðastnefnda þegar hópur framsýnna foreldra ákvað að bjóða börnum sínum upp á veraldlegan valkost er þau stigu í fullorðinna tölu. Úr varð borgaraleg ferming, sem þúsundir unglinga hafa nú gengið í gegnum og félagið hlotið mikið lof fyrir.  Eftir langa og óeigingjarna baráttu félagsfólks fékk Siðmennt loks stöðu lífsskoðunarfélags til jafns við trúfélög vorið 2013 og í kjölfarið stökkbreyttist félagafjöldinn og starfsemi félagsins í takt við það.

Jafn ör vöxtur og sá sem hefur verið á félagsaðild og athafnafjölda Siðmenntar er auðvitað gleðilegur fyrir veraldlega þenkjandi fólk. Hins vegar fylgja slíkum vexti ýmsar áskoranir sem erfitt getur verið fyrir örfáa sjálfboðaliða að takast á við.  Fermingarfræðslan er ekki lengur bara vikulegt námskeið fyrir hóp hugrakkra unglinga heldur hefur nú námsmannafjölda á við stærstu grunnskóla landsins. Athafnarstjórahópurinn er ekki lengur hópur örfárra hugsjónarmanna sem hafa starfað með félaginu frá upphafi heldur telur nú 50 launaða einstaklinga sem koma til starfa af hugsjón og heilindum með alls konar reynslu og hæfni í bakpokanum. Samtímis eykst þörfin fyrir faglegt verklag og staðlaðar aðferðir, til að gæta jafnræðis og stuðla að gagnsæi.  

Stefnumál mín

Faglegt verklag

Siðmennt er nú sjöunda stærsta lífsskoðunarfélag landsins og veltir tugmilljónum króna sem koma úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. Þannig félag þarf að reka á gagnsæjan og faglegan máta, með verkferlum, skýru umboði, góðri skjölun og vandaðri áætlanagerð. Ég mun beita mér fyrir því að félagið endurskoði lög sín, eins og þegar er í vinnslu, setji siðareglur fyrir sjálfboðaliða og launafólk, innleiði verklagsreglur um gæði í athafnaþjónustu og virkni athafnarstjóra, og gefi héðan í frá út ársskýrslur og ársreikninga.

Virkjum félagana

Virkur kjarni Siðmenntarfélaga hefur alltaf verið lítill og þéttur. Það var feykinóg fyrir félag með 300 félaga og takmarkaða starfsemi en fyrir 3000 félaga er ljóst að fleiri þurfa að koma að störfum og ákvarðanatöku félagsins. Það hefur verið gott að sjá síðustu daga hversu margir brenna fyrir starfsemi félagsins og vonandi nær ný stjórn að virkja þann hug, þrátt fyrir mismunandi skoðanir. Einnig er vannýttur mannauður í verktökum félagsins því vafalaust mætti virkja athafnarstjóra, fermingarfræðara og viðbragðsteymismeðlimi betur í almennu félagastarfi með því að fela þeim ábyrgðarhlutverk. Þetta er verkefni sem ég vil takast á við með aukinni verkaskiptingu og þátttökulýðræði.

Stefnan tekin

Ég hef talað fyrir því, bæði sem varamaður í stjórn og sem fulltrúi í athafnaráði, að félagið fari í ítarlega stefnumótun. Kjarni virkra félaga hefur stækkað ört, líkt og félagið, og einsýnt er að félagar þurfa að greina stöðuna, setja markmið og teikna upp framtíðarsýn félagsins. Þetta er ferli sem ætti að vera opið öllum áhugasömum þannig að hægt sé að fanga hugmyndir og kraft hins almenna félaga. Slík stefna myndi vera stjórn og starfsmanni mikið leiðarljós í sínu starfi, gera starfsemi félagsins markvissari og búa til vettvang þar sem félagar gætu sameinast um markmið og tilgang félagsins.

Hver er ég?

Kaospilotinn, húmanistinn og húmoristinn

Inga Auðbjörg K. Straumland

Athafnarstjóri og atvinnuskáti

Hvaðan kem ég?

Ég hef gert ýmislegt í gegnum tíðina annað en að starfa fyrir Siðmennt.  Ég er í hálfu starfi sem skáti um þessar mundir og vinn svo frílans í alls konar verkefnum; stjórnun vinnuferla, stefnumótun, umbroti, vefsíðugerð, verkefnastjórnun og auðvitað sem athafnarstjóri.  Ég er menntaður Kaospilot, sem er skapandi verkefnastjórnun með samfélagsívafi og var að klára meistaragráðu í verkefnastjórnun frá HR. Ég á einn mann og einn son og tvo ketti og bý í Reykjavík.

Ef þú vilt glöggva þig betur á bakgrunni mínum getur þú kíkt á ferilskrána mína.

Heyrðu í mér!

Ég vil gjarnan heyra í félögum í Siðmennt varðandi framboð mitt og framtíð Siðmenntar.  Við höfum vafalaust margt að ræða!

  • 8966120
  • inga@sidmennt.is
  • Miðtún 80, 105 Reykjavík

Athafnastýring og áhugasemi

Ég gekk í félagið daginn sem það varð lífsskoðunarfélag og gerðist athafnarstjóri seinna um haustið. Mér fannst hlutverkið spennandi, enda liggur það vel fyrir mér að rita texta, koma fram og setja sögur fólks í glaðlegan og hátíðlegan búning, en jafnframt sá ég að félagið vildi gjarnan bæta við kvenkyns athafnarstjórum og á erfitt með að standast slíkar áskoranir. Árið 2015 var ég svo kjörin varamaður í stjórn félagsins, þar sem ég sat í tvö ár og hafði þar frumkvæði að ýmsum nýjungum og breytingum er varðaði verklag. Eitt af því sem ég hafði frumkvæði að var stofnun athafnaráðs sem stofnað var haustið 2016 og ég hef setið í frá upphafi.  Vorið 2017 vék ég úr stjórn félagsins og einbeitti mér að störfum athafnaráðs. Frá því að athafnaráð var stofnað hefur það skapað nýja verkferla, endurhannað námskeið og þjálfun athafnarstjóra, haldið lýðræðislega og fræðandi athafnarstjórafundi og gert áætlanir um áframhaldandi starf; svo sem útfararþjálfun, ritlistarnámskeið, kynningarherferðir og innleiðingu veklags.

Húmanískur hugmyndasmiður

Ég hef ekki setið í stjórn síðustu tvö ár enda hafa verkefni mín sem athafnarstjóri og athafnaráðsmeðlimur verið ærin. Ég hef þó oft boðið stjórn aðstoð mína sem lóðs, textasmiður, hönnuður og hugmyndasmiður. Nú finnst mér að tími sé kominn til að félagið uppfæri vinnubrögð sín, bretti upp ermarnar og setji í næsta gír. Margir sjálfboðaliðar hafa lagt hönd á plóg og gert félagið að því sem það er.  Fyrir það er ég mjög þakklát og efast ekki um að við séum það flest. Nú er þörf á því að nýta þá reynslu og þekkingu sem fyrir er í félaginu og byggja á því nútímalegt, faglegt félag sem starfar af virðingu við þá samfélagslegu hlutdeild sem félagið hefur hlotið. Ég hef margar hugmyndir varðandi framtíð félagsins og langar gjarnan að veita því forystu. Í samvinnu við ykkur félagsfólk getum við haldið okkar góðu störfum áfram og gert enn betur.