Færslur

Hvað á barnið að heita? Ráð við val á barnanöfnum

Samkvæmt íslenskum lögum þarf að nefna barn fyrir 6 mánaða afmælisdag þess.  Það eru um fjögurþúsund nöfn á íslenskri mannanafnaskrá og því úr vöndu að ráða við val á nafninu sem barnið þitt þarf að bera, sennilega út ævina!

Hér eru nokkur atriði sem þú skalt hafa í huga:

Lagaleg atriði varðandi nafngjöf

Íslensk lög um mannanöfn eru talsvert strangari en í flestum löndum í kring um okkur. Mér þykir þau talsvert íþyngjandi og hallærisleg, enda treysti ég almennt foreldrum til að nefna börnin sín og finnst fáránlegt að fullorðið fólk geti heldur ekki valið sér hvaða nafn sem er. Ef að foreldrar gefa barni sínu nafn sem fer langt út fyrir þann siðferðislega ramma sem samfélagið setur sér, þá er það barnaverndarmál. En þetta er svo sem efni í annan pistil…

Hér eru helstu atriðin sem þú þarft að hafa í huga þegar þú velur nafn á barnið þitt, eigi það að standast íslensk lög:

 • Stúlka þarf að bera kvenkyns nafn og strákur þarf að bera karlkyns nafn. Þetta er náttúrulega fullkomlega úrelt, en svona er þetta samkvæmt núgildandi lögum! Nokkur nöfn eru þó bæði á lista yfir kvenmanns- og karlanöfn; svo sem Blær, Eir, Auður, Karma og Júní.
 • Eiginnöfn og millinöfn mega ekki vera fleiri en þrjú. Þú mátt sumsé nefna barnið þitt „Blær Eir Auður Gunnarsson“ en ef það er með millinafn (millinöfn er oft svolítið svipuð og ættarnafn en það gilda um þau aðrar reglur), þá mega eigin eiginnöfnin bara vera tvö. „Blær Eir Hildiberg Gunnarsdóttir“ er því í lagi, en ekki „Blær Eir Auður Hildiberg Gunnarsdóttir“.
 • Nafnið verður að geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi og skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Öll nöfnin á íslenskri mannanafnaskrá eru talin standast þessi ákvæði, en ef þú vilt nefna barnið þitt nafni sem er ekki á þeim lista verður að sækja um það sérstaklega.
 • Nafnið verður að vera á íslenskri mannanafnaskrá nema annað foreldrið sé ekki íslenskur ríkisborgari. Þá má nefna barni nafni sem ekki er á skránni, en það verður þó að hafa amk eitt nafn sem er á henni.

Ef þú vilt nefna barnið þitt nafni sem er ekki á mannanafnaskrá verður þú að sækja um það hjá mannanafnanefnd með þartilgerðu eyðublaði.

Að finna rétta nafnið

Eins og áður segir eru mörgþúsund nöfn á íslenskri mannanafnaskrá og þú yrðir ansi lengi að velja með því að opna einfaldlega skrána og nota útilokunaraðferðina.  Hér eru nokkur ráð sem geta hjálpað þér að njörva niður rétta nafnið.

Vefir og öpp

Þú getur notað vefi og öpp til að hjálpa þér að fækka valkostunum:

 • Ungi.is er með nafnaleitarvél og ýmsar upplýsingar um nöfn.
 • Nefna er gott app sem er því miður bara til fyrir iPhone.
 • Bókin Nöfn Íslendinga er með fróðlegar upplýsingar um mannanöfn.
 • Áttavitinn er með góðan lista yfir nöfn og merkingar þeirra.

Nafn af handahófi

Það er allt í lagi að láta bara lukkudísirnar ráða og velja nafn af handahófi.  Þú getur notað þessar aðferðir:

 • Rífðu tíundu hverja blaðsíðu úr símaskránni og veggfóðraðu vegginn hjá þér.  Kauptu þér pílusett og kastaðu í vegginn úr fjarlægð.  Þar sem pílan lendir, þar er nafnið.  Vonandi lendir hún samt ekki á Loftorku eða Rafiðn.
 • Taktu skraflpoka og dragðu nokkrar flísar.  Athugaðu hvort þú getur búið til nafn úr flísunum, jafnvel þó þú þurfir að bæta við einhverjum stöfum eða taka í burtu.
 • Tryggingastofnun Ríkisins hefur slengt öllum íslenskum mannanöfnum á gluggana hjá sér á Laugavegi 114.  Farðu og kastaðu snjóbolta í gluggann með lokuð augun og veldu nafnið sem snjóboltinn lenti á.

Í höfuðið á einhverjum

Það er mjög algengt á Íslandi að börn séu nefnd í höfuðið eða til höfuðs einhverjum.  Margir nefna börn eftir foreldrum sínum, en það getur verið pínlegt ef þú ert seinna á ferð í barneignum heldur en systkini þín og nú þegar eru komnar fimm Fjólur í nánustu fjölskyldu í höfuðið á móður þinni.  Þá getur verið sniðugt að fara aðeins aftar í ættarbogan og skoða nöfn formæðra og -feðra frá fyrri öldum.  Nafn langömmu gæti til að mynda verið nokkuð lítið notað í dag og því skemmtilega frumlegt og einstakt.  Til að skoða ættartréð sitt er gott að nota Íslendingabók, sem bæði er með vefsíðu og app.
Svo má taka nöfn foreldra eða annarra skyldmenna og blanda þeim saman.  Steinþór og Bergdís gætu orðið að Bergþóru og Björgvin og Sigurður gætu orðið að Sigurbjörgu, Már og Nicole gætu orðið Máni.

Sameiginlegt áhugamál parsins

Kynntust þið á siglingarnámskeiði?  Hvernig væri þá að velja nafn eins og Ægir eða Unnur, eða eitthvað annað sem hefur skírskotun í sæinn?  Eða eruð þið bæði rosalega hrifin af sömu bókmenntunum?  Hvorki Tyrian né Sansa eru á skrá yfir íslensk mannanöfn, en það er Aría sem hentar vel þeim sem eru brjálaðir í Game of Thrones og þeir sem hylla Harry Potter geta nefnt barnið sitt Harry.

Gott að hafa í huga þegar búið er að velja nafn:

Skammstöfun

Þegar þið teljið ykkur hafa fundið fallegt nafn sem hæfir barninu vel er sniðugt að skoða skammstöfunina.  Sigurður Aron Unu-Ragnarsson gæti verið óhress með upphafsstafina sína þegar hann skrifar undir sinn fyrsta húsnæðiskaupasamning og sömuleiðis Fjóla Ólöf Leirfjörð og Friðrik Ívar Friðiksson Löve.

Er nafnið mjög vinsælt um þessar mundir?

Það er ekkert að því að heita vinsælu nafni, -flestir Jónar eru frábærir og allar Emilíurnar og Aronarnir sem eru í grunnskóla núna verða flott fólk.  Það getur hins vegar verið þægilegt og komið í veg fyrir misskilning að heita ekki sama nafni og fjórar aðrar stelpur í bekknum.  Á vef Hagstofunnar má sjá lista yfir vinsæl nöfn, bæði núlifandi Íslendinga og nýfæddra barna.

Er nafnið einstakt?

Það er auðvitað alls ekki nauðsynlegt að heita nafni sem enginn annar heitir og margar fjölskyldur eru með nafnahefðir þar sem allir heita Jón Björnsson eða Björn Jónsson, sem er skemmtilegur siður.  Sumir foreldrar vilja þó velja barninu sínu tvínefni sem enginn heitir nú þegar og þó maður velji sjaldgæf nöfn gætu tvínefnin verið algeng. Ef þú vilt vera alveg viss um að enginn annar heiti þessu nafni skaltu fletta því upp á vef Hagstofunnar. 

Hvernig beygist nafnið?

Leifur Arnar er fallegt nafn en það hljómar skringilega að ætla að sækja “leifarnar” í skólann.  Beygið tvínefnið í öllum myndum áður en þið skráið það endanlega.  Ef þú ert ekki viss um hvernig nafnið beygist geturðu flett því upp hjá Árnastofnun og mundu að bæði nöfnin beygjast; maður fer heim til Jóns Þórs, ekki Jón Þórs.

Merking nafnsins

Skoðaðu merkingu nafnsins.  Hún þarf ekki að skipta höfuðmáli en foreldrar gætu samt viljað gæta að því hver merking og uppruni nafnsins er.  Það eru engar reglur sem banna einstaka samsetningu nafna en það gæti verið gott fyrir foreldrana að vera meðvitaðir um að Þorkell Hjálmar heitir í raun tvisvar nafni sem merkir hjálmur (Þorkell = Hjálmur Þórs) og Nadía Von heitir tvisvar von (Nadiya þýðir von á úkraínsku og svipaðar orðmyndir má finna í slavneskum málum).

Hluti þessa pistils birtist fyrst á Áttavitanum, en undirrituð starfaði þar um tíma.