Færslur

Nafngjafarathafnir fyrir trans fólk

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ekki væri skemmtileg og merkingarþrungin nýung að bjóða upp á nafngjafarathafnir, eða nafnastaðfestingu, fyrir trans fólk á Íslandi.  Hugmyndin er hvorki mín né ný; íslenskt trans fólk hefur vafalaust haldið upp á tilefnið á eigin hátt og erlendis þekkist að athafnarstjórar taki að sér slíkar athafnir.

Flestir foreldrar velja nöfn á barnið sitt af góðum hug, en fyrir fólk sem ekki samsamar sig því kyni sem það fékk úthlutað við fæðingu, getur það verið stórt skref að taka upp nýtt nafn.  Fortíðin að baki og nýr kafli tekur við. Íslenskan er yfirgengilega kynjuð og enn sem komið er eru bara örfá nöfn sem teljast kynhlutlaus eða henta fólki sitthvoru megin á kynjatvíhyggjuásnum, þannig að margt trans fólk skilur við nafnið sem þeim var gefið á unga aldri og tekur upp nýtt nafn.  Nafn sem hæfir betur og endurspeglar kynvitund viðkomandi betur.  Og það er þið sem eruð á þessum tímamótum sem mig langar gjarnan að þjónusta.

Hvernig gæti nafnaathöfn fyrir trans manneskju litið út?

Augljóslega myndi hún vera talsvert öðruvísi en nafngjafarathöfn þar sem miðpunktur athyglinnar er ungabarn í skírnarkjól sem afi prjónaði hér um árið.  (Ef þú kemst ennþá í skírnarkjólinn þinn, þá er þér náttúrulega velkomið að klæðast honum við slíka athöfn. Ég geng reglulega í fermingarfötunum mínum. Ég var reyndar talsvert stærri við fermingu en þegar ég var skírð. Æji, nóg um það).  Athöfnin gæti þess í stað fókusað á að fortíðin sé að baki, með þeim þroskandi en erfiðu lífsreynslum sem þú hefur gengið í gegnum, og fagnað svo þínu nýja lífi, með nýju nafni.  Gestirnir gætu spilað hlutverk; heitið stuðningi og tekið þátt í táknrænum athöfnum.

Nafngjöfin gæti innihaldið, auk nafngjafarræðu, ýmis táknræn atriði og uppbrot, svo sem:

  • Ljóðalestur
  • Tónlistaratriði
  • Athafnir þar sem sagt er skilið við fortíðina með táknrænum hætti
  • Stuðningsheit frá aðstandendum
  • Hjartsláttarhringur
  • Upplestur

Hvenær er rétti tímapunkturinn?

Það er í raun enginn réttur og enginn rangur tímapunktur.  Sumt fólk gæti valið sér að halda nafninu leyndu þar til í athöfninni og markar hún þá ákveðið upphaf á erfiðri en spennandi vegferð.  Annað fólk hefur kannski þegar valið sér nafn og tilkynnt það, en fær því loks breytt formlega í Þjóðskrá.  Þá markar athöfnin ákveðin tímamót; vörðu á þessu ferðalagi.

Ok, ég er til í þetta! Hvað svo?

Ég veit það ekki alveg.  Ég veit ekki til þess að nokkur athafnarstjóri á vegum Siðmenntar hafi stýrt svona athöfn til þessa.  En þér er ó, svo velkomið að hafa samband og við getum fundið út úr þessu saman.