Að halda óvænt brúðkaup*

Augun á gestunum glennast upp.  Það fer einhver rafmagnaður straumur um salinn.  Fiðringurinn í maganum þegar þú áttar þig á því að þetta er að renna upp fyrir fólki; Það er statt í brúðkaupi!

Það getur verið sjúklega skemmtilegt að gifta sig óvænt.  Það er einhver galdur sem leysist úr læðingi við að koma fólki á óvart. Ástæðurnar geta verið fleiri en bara spennan; oft er þetta ódýr kostur og minna stessandi en allt prjálið og puntið sem fylgir því að skipuleggja giftingarhátíð í marga mánuði.  Oft er þetta haldið við önnur hátíðleg tækifæri, eins og nafngjafarhátíð, stórafmæli eða annan viðburð, til að tryggja að allt þitt uppáhaldsfólk sé á staðnum. En þetta getur líka haft ákveðna galla, svo mig langar að fjalla aðeins um þetta til að gefa þér tækifæri á að velta upp kostum og göllum áður en að þú ákveður að þetta sé málið fyrir þig.

Kostir þess að gifta sig óvænt

Einstök stemming

Það er alveg rétt. Stemmingin sem myndast er einstök. Það er gaman að koma fólki á óvænt. Hárin rísa, adrenalínið flæðir og tárin bresta á hvarmi.  Stundin verður mjög eftirminnileg fyrir alla aðila.

Ódýr leið

Oft getur þetta verið talsvert ódýrari möguleiki. Ef þetta er haldið í tengslum við nafngjafarhátíð eða stórafmæli er auðvitað einhver tilkostnaður, enda yfirleitt boðið upp á einhverjar veigar við slík tækifæri, en sá kostnaður blinkar í samanburði við 160 gesta veislur með 4 rétta máltíð.  Þetta getur því verið frábært tækifæri fyrir fólk sem hefur takmörkuð fjárráð eða vill einfaldlega nýta peninginn í eitthvað annað, -eins og ferðalög með fjölskyldunni, nýjan flygil í stofuna eða innborgun í húsnæði.

Þú færð að plana í friði

Um leið og búið er að tilkynna trúlofun er í alvörunni fólk farið að senda skilaboð um hvort því sé ekki örugglega boðið í hjónavígsluna.  Með því að skipuleggja í leyni geturðu athafnað þig í friði, forðast vandræðalegar aðstæður varðandi kunningja sem ætlast til að þeim sé boðið og fengið að gera daginn alveg eins og þú sérð fyrir þér; ekki eins og mamma þín eða systir þín eða vinur þinn sér fyrir sér.

Allt er bara svolítið afslappaðra

Giftingarskipulagning er fljót að vinda upp á sig. Þó þú hafir kannski ekki séð fyrir þér að verða nein „bridezilla“ þá fyrr en varir ertu mögulega farin að eltast við að það sé nú örugglega eitthvað blátt og eitthvað lánað og gamalt og nýtt í brúðarfatnaðinum og búin að eyða talsvert meiri tíma en þú sást fyrir þér í að hanna servíettuhringa.  Óvæntar giftingarhátíðir eru yfirleitt aðeins jarðbundnari og þú sleppur við allt stressið.

 

Gallar þess að gifta sig óvænt

Ekki rétta fólkið á staðnum

Fólk leggur oft mikið á sig til að mæta í giftingar hjá vinum sínum; ferðast 4000 km, styttir sumarfrí, sleppir öðrum viðburðum og leigir dýrar barnapíur í langan tíma.  Fólk leggur hins vegar ekki endilega í að gera hið sama fyrir nafngjafarveislur um miðjan dag.  Það getur því verið að fólk sleppi því að mæta, en hefði ekki gert það ef það vissi hvað stæði til. Þetta getur verið leiðinlegt fyrir þig, af því að auðvitað viltu hafa systkini þín og bestu vini á staðnum, en það sem verra er; þetta getur verið mjög leiðinlegt fyrir gestina sem mættu ekki. Sem leiðir mig að…

Sumir fyrirgefa þér aldrei

Fólkið sem mætir ekki getur orðið mjög súrt yfir því að hafa ekki verið látið vita hvað stóð til.  Þetta er þinn dagur og þú mátt hafa hann eins og þú vilt – hafðu það alveg hugfast – en vertu samt tilbúi(ð/n/nn) að takast á við að ástvinir þínir geti verið mjög fúlir út í þig í langan tíma.  Ekki taka það til þín en vertu samt undir það búin svo það eyðileggi ekki upplifun þína af deginum.

„En þetta var ekki það sem ég sá fyrir mér!“

Ég hef alveg verið tilbúin í hjónavígslu sem seinkaði um klukkutíma því að móðir annars hjónaefnisins var í hálfgerðu taugaáfalli yfir því að þetta væri ekki eins og hún hefði séð fyrir sér. Þegar allt kemur til alls er þetta ykkar dagur og hann má vera nákvæmlega eins og þið viljið hafa hann; en það getur verið gott að vera undir það búinn að viðbrögð þinna nánustu geti verið alls konar.

Engir pakkar

Já, ég ætla að benda á þetta. Hjónabandið ykkar snýst ekki um pakkka. Það erum við öll meðvituð um. En hafðu það samt í huga að ef þú giftir þig óvænt, þá færðu sennilega ekki marga stóra alvöru pakka. Auðvitað geturðu keypt þér allt sem þú hefðir fengið að gjöf fyrir milljónina sem þú sparar með því að halda ekki risavaxna giftingarveislu og meira að segja keypt það eftir þínum smekk! En þetta er bara svona jarðbundin lítil ábending; enda eru brúðargjafir stundum meginuppistaðan í húsbúnaði ungra para.

Fólk er óstundvíst

Flestir mæta á réttum tíma í giftingar og hún getur því farið fram á áætlun, sem er gott fyrir athafnarstjórann, söngvarann, organistann og veisluþjónustuna. Fólk er hins vegar mun óstundvísara þegar um minnihátta athafnir eða veislur er að ræða. Hafðu það bara í huga.

Mismunandi óvæntar hjónavígslur

Í veislu eða hátíðleg tilefni

Mynd af fjölskyldu á brúðardaginn.

Lalli og Hildur ákváðu með stuttum fyrirvara að gifta sig samhliða nafnaveislunni fyrir yngri soninn. Athöfnin var afslöppuð og falleg og svo héldu þau bara stóra veislu ári seinna! Great success!

Sumir kjósa að nýta nafngjafarveislur, stórafmæli eða jafnvel ættarmót til að draga saman alla ástvini sína og koma þeim á óvart. Þetta hefur þann kost í för með sér að yfirleitt eru flestir nánir vinir og ættingjar mættir á staðinn. Sum pör gefa í skyn í boðskortinu að fertugsafmælið sé meira en bara fertugsafmæli, svona til að búa fólkið sem lúsles leiðbeiningar undir herlegheitin, en koma hinum á óvart.

Í einrúmi eða litlum hóp

Sum pör gifta sig óvænt í einrúmi eða í litlu matarboði, bara með nánustu ættingjum. Það dregur úr því að það skapist óánægja með að þessi og hinn hafi ekki mætt eða verið boðinn og getur verið tilvalið fyrir þau sem vilja koma lagalegu hliðinni frá, en halda svo kannski óformlegri, stærri veislu síðar.

Án þess að láta makann vita

Já, það er svo sem alveg hægt að skipuleggja hjónavígslu sem er óvænt fyrir maka þinn líka. Það er þó oftast ekki ráðlegt, því að makinn getur brugðist illa við.  Ef þú ákveður að þetta sé í alvöru eitthvað sem þig -og ekki síst makann- dreymir um, þá skaltu ræða það mjög vel við bæði athafnarstjórann og einhvern sem þekkir maka þinn mjög vel.  Hér eru nokkrir þættir sem þú skalt hafa í huga:

  • Þið verðið að vera trúlofuð. Það kemur ekki til greina að gefa saman hjón sem ekki hafa haft tækifæri til að játast hvoru öðru með í það minnsta þeim hætti áður.
  • Það verður að vera amk klukkutíma fyrirvari.  Þú verður að gefa maka þínum andrými og tækifæri til að bakka út.  Það verður ekki gert fyrir framan áhorfendur, fyrir framan altarið.  Ef þetta er óvænt, þá verðurðu samt að vera tilbúin(n) að „spoila“ því rétt fyrir athöfn og athafnarstjórinn þarf að fá að ræða við maka þinn í einrúmi fyrir athöfn.
  • Þið verðið að vera skráð í sambúð. Til þess að geta sótt um tilskylda pappíra fyrir hönd maka þíns, þá þurfið þið að vera í sambúð.
  • Þú verður að vera alveg 100% viss um að þetta sé eitthvað sem makinn þinn vill, er sáttur við og spenntur fyrir.  Þú verður að þekkja makann þinn mjög vel og vita að viðkomandi hafi gaman af óvæntum hlutum, að viðkomandi sé sama þó hann hafi ekki almennilega stjórn á aðstæðunum og geti tekist á við þetta.  Þú verður að annaðhvort þekkja smekk makans þíns nógu vel til að geta valið fyrir hann brúðarfötin og allt hitt sem fylgir, eða þekkja maka þinn nógu vel til að vera handviss um að honum sé alveg sama.  Margar brúðir hefur dreymt um í hvernig kjól þær ætla að vera og margir brúðgumar eru ekki til í að dressa sig í hvaða jakkaföt sem er.

*Ég verð að viðurkenna að mér er meinilla við að nota þetta orð, „brúðkaup“, en þetta er sennilega nákvæmlega það sem þú gúglaðir til að enda hérna og stundum þurfum við bara að lúta í lægra haldi fyrir raunverulegum guði samtímans;  Mrs. Google.