Brúðkaup, gifting eða hjónavígsla? Nokkur orð um orðanotkun

„Á íslensku má alltaf finna svar“ segir í ljóði Þórarins Eldjárn sem mörgum okkar er minnistætt úr auglýsingum Mjólkursamsölunar á síðustu öld. Það er auðvitað laukrétt, enda á hún alls konar orð yfir athafnir og atburði tengda því þegar tveir einstaklingar ákveða að bindast tryggðarböndum. Sum orðin eru góð og gegn á meðan önnur endurspegla hugsunarhátt fortíðarinnar og eiga minna erindi í dag. Ég reyni að nota sum orð meira en önnur, sem endurspeglast sumsstaðar á þessum vef og því vildi ég rita um það nokkur orð.

 

Af hverju notarðu ekki bara brúðkaup eins og allir aðrir?

Það er rétt; orðið „brúðkaup“ er sennilega það orð sem oftast er notað yfir hjónavígsluathöfn og er yfirleitt notað í samsettum orðum eins og „brúðkaupsveisla“ og „brúðkaupsafmæli“.  Það er erfitt að ætla sér að halda uppi vef sem fjallar um hjónavígsluathafnir án þess að nota þetta orð, enda er þetta sennilega orðið sem tilvonandi brúðhjón slá inn í leitarvélar. Ég forðast hins vegar að nota það mjög mikið, enda fer merking orðsins fyrir brjóstið á mér. Brúður, sem er kvenkyns hjónaefni, er gott og gilt orð, en þegar því er skellt saman við orðið -kaup kárnar gamanið.  Fyrr á öldum fylgdi misveglegur heimanmundur konunni þegar hún gekk í hjónaband og oftar en ekki gat hann haft áhrif á makavalið. Mér hugnast ekki að nota orðfæri sem vísar í að konan sé keypt eða gefin manni sínum eins og einhver eign sem hann getur ráðstafað að vild. Ég kemst þó ekki alltaf hjá því að nota það og því er orðið stöku sinnum að finna í titlum á pistlum þessa vefjar, en ég nota það aldrei í athöfnunum mínum.

 

En hvað með giftingu? Er eitthvað skárra að gefa konu en selja?

Nei, það er auðvitað alls ekki skárra að gefa konu en selja hana, en líklegra er þó að orðið vísi í orðið „gifta“, sem þýðir „gæfa“.  

Á myndinni af þessu dásamlega pari er engin brúður og því eðli málsins samkvæmt erfitt að tala um brúðkaup…

Og jafnvel þó orðið ætti uppruna sinn í það að konur væru gefnar eiginmönnum sínum, þá finnst mér það algerlega opið til nútímatúlkunar og tengi sjálf alveg við það sem gift kona að hafa gefist manni mínum og hann mér. Ég gef honum hlutdeild í mér og hann gefur mér hlutdeild í sér.  Auk þess er orðið ekki kynjað, eins og orðið brúðkaup og hentar því fyrir pör af öllum toga. Gifting hentar líka ágætlega í samsett orð og ég hef til dæmis tamið mér að nota orðið „giftingarhátíð“ í stað orðsins „brúðkaupsveisla“. Best finnst mér þó að nota orðið „hjónavígsla“.

 

Hjónavígsla? Bíddu, eru vígslur ekki kirkjulegar? Þú ert ekki trúuð!

Ja, vissulega eru margar vígslur trúarlegar og skiljanlegt að fólk tengi einhvern helgiblæ við orðið. Það er þó svo að alls ekki allar vígslur séu trúarlegar.  Ég er til dæmis vígður skáti og það hefur ekkert með guð og kirkjuna að gera. Mér finnst orðið bera hátíðlegan blæ og orðið „hjón“ fallegt yfir þessa sameinuðu einingu tveggja (nú, eða mögulega fleiri) einstaklinga.

 

Hvað á bara að stela öllu frá kirkjunni? Var ekki nóg að stela orðinu „ferming“?

Æji, er þetta ekki þreytt umræða?  Sumt fólki líður eins og Siðmennt sé að stela einhverju frá kristinni trú með því að aðstoða fólk við að halda upp á tímamót í lífi sínu. Það er náttúrulega út í hött, því að allir menningarheimar hafa sína siði og venjur til að fagna hjónaböndum og manndómsvígslum og til að kveðja horfna ástvini.  Kirkjan hefur engan einkarétt á ástinni og flestir hafa þörf fyrir slíkar athafnir, óháð trú. Varðandi orðið „ferming“, þá er það dregið af latneska orðinu confirmare, sem þýðir vissulega staðfesting, eins og kirkjan vísar í (þar sem ferming er eins konar staðfesting á skírninni), en þýðir líka að styðja og styrkjast.  Það er því ekkert sem hindrar aðra en kirkjuna í að nota þetta orð yfir hvers konar manndómsvígslu (sem er náttúrulega líka kynjað og leiðinlegt orð) þar sem einstaklingurinn fær stuðning til að styrkja sig og þroska sem manneskja.  Og eins og Hope Knútsson benti eitt sinn á í viðtali: Við skulum hætta að nota ferming, þegar Kirkjan hættir að nota orðið „jól“, sem upphaflega er auðvitað komið úr heiðni.

Að halda óvænt brúðkaup*

Augun á gestunum glennast upp.  Það fer einhver rafmagnaður straumur um salinn.  Fiðringurinn í maganum þegar þú áttar þig á því að þetta er að renna upp fyrir fólki; Það er statt í brúðkaupi!

Það getur verið sjúklega skemmtilegt að gifta sig óvænt.  Það er einhver galdur sem leysist úr læðingi við að koma fólki á óvart. Ástæðurnar geta verið fleiri en bara spennan; oft er þetta ódýr kostur og minna stessandi en allt prjálið og puntið sem fylgir því að skipuleggja giftingarhátíð í marga mánuði.  Oft er þetta haldið við önnur hátíðleg tækifæri, eins og nafngjafarhátíð, stórafmæli eða annan viðburð, til að tryggja að allt þitt uppáhaldsfólk sé á staðnum. En þetta getur líka haft ákveðna galla, svo mig langar að fjalla aðeins um þetta til að gefa þér tækifæri á að velta upp kostum og göllum áður en að þú ákveður að þetta sé málið fyrir þig.

Kostir þess að gifta sig óvænt

Einstök stemming

Það er alveg rétt. Stemmingin sem myndast er einstök. Það er gaman að koma fólki á óvænt. Hárin rísa, adrenalínið flæðir og tárin bresta á hvarmi.  Stundin verður mjög eftirminnileg fyrir alla aðila.

Ódýr leið

Oft getur þetta verið talsvert ódýrari möguleiki. Ef þetta er haldið í tengslum við nafngjafarhátíð eða stórafmæli er auðvitað einhver tilkostnaður, enda yfirleitt boðið upp á einhverjar veigar við slík tækifæri, en sá kostnaður blinkar í samanburði við 160 gesta veislur með 4 rétta máltíð.  Þetta getur því verið frábært tækifæri fyrir fólk sem hefur takmörkuð fjárráð eða vill einfaldlega nýta peninginn í eitthvað annað, -eins og ferðalög með fjölskyldunni, nýjan flygil í stofuna eða innborgun í húsnæði.

Þú færð að plana í friði

Um leið og búið er að tilkynna trúlofun er í alvörunni fólk farið að senda skilaboð um hvort því sé ekki örugglega boðið í hjónavígsluna.  Með því að skipuleggja í leyni geturðu athafnað þig í friði, forðast vandræðalegar aðstæður varðandi kunningja sem ætlast til að þeim sé boðið og fengið að gera daginn alveg eins og þú sérð fyrir þér; ekki eins og mamma þín eða systir þín eða vinur þinn sér fyrir sér.

Allt er bara svolítið afslappaðra

Giftingarskipulagning er fljót að vinda upp á sig. Þó þú hafir kannski ekki séð fyrir þér að verða nein „bridezilla“ þá fyrr en varir ertu mögulega farin að eltast við að það sé nú örugglega eitthvað blátt og eitthvað lánað og gamalt og nýtt í brúðarfatnaðinum og búin að eyða talsvert meiri tíma en þú sást fyrir þér í að hanna servíettuhringa.  Óvæntar giftingarhátíðir eru yfirleitt aðeins jarðbundnari og þú sleppur við allt stressið.

 

Gallar þess að gifta sig óvænt

Ekki rétta fólkið á staðnum

Fólk leggur oft mikið á sig til að mæta í giftingar hjá vinum sínum; ferðast 4000 km, styttir sumarfrí, sleppir öðrum viðburðum og leigir dýrar barnapíur í langan tíma.  Fólk leggur hins vegar ekki endilega í að gera hið sama fyrir nafngjafarveislur um miðjan dag.  Það getur því verið að fólk sleppi því að mæta, en hefði ekki gert það ef það vissi hvað stæði til. Þetta getur verið leiðinlegt fyrir þig, af því að auðvitað viltu hafa systkini þín og bestu vini á staðnum, en það sem verra er; þetta getur verið mjög leiðinlegt fyrir gestina sem mættu ekki. Sem leiðir mig að…

Sumir fyrirgefa þér aldrei

Fólkið sem mætir ekki getur orðið mjög súrt yfir því að hafa ekki verið látið vita hvað stóð til.  Þetta er þinn dagur og þú mátt hafa hann eins og þú vilt – hafðu það alveg hugfast – en vertu samt tilbúi(ð/n/nn) að takast á við að ástvinir þínir geti verið mjög fúlir út í þig í langan tíma.  Ekki taka það til þín en vertu samt undir það búin svo það eyðileggi ekki upplifun þína af deginum.

„En þetta var ekki það sem ég sá fyrir mér!“

Ég hef alveg verið tilbúin í hjónavígslu sem seinkaði um klukkutíma því að móðir annars hjónaefnisins var í hálfgerðu taugaáfalli yfir því að þetta væri ekki eins og hún hefði séð fyrir sér. Þegar allt kemur til alls er þetta ykkar dagur og hann má vera nákvæmlega eins og þið viljið hafa hann; en það getur verið gott að vera undir það búinn að viðbrögð þinna nánustu geti verið alls konar.

Engir pakkar

Já, ég ætla að benda á þetta. Hjónabandið ykkar snýst ekki um pakkka. Það erum við öll meðvituð um. En hafðu það samt í huga að ef þú giftir þig óvænt, þá færðu sennilega ekki marga stóra alvöru pakka. Auðvitað geturðu keypt þér allt sem þú hefðir fengið að gjöf fyrir milljónina sem þú sparar með því að halda ekki risavaxna giftingarveislu og meira að segja keypt það eftir þínum smekk! En þetta er bara svona jarðbundin lítil ábending; enda eru brúðargjafir stundum meginuppistaðan í húsbúnaði ungra para.

Fólk er óstundvíst

Flestir mæta á réttum tíma í giftingar og hún getur því farið fram á áætlun, sem er gott fyrir athafnarstjórann, söngvarann, organistann og veisluþjónustuna. Fólk er hins vegar mun óstundvísara þegar um minnihátta athafnir eða veislur er að ræða. Hafðu það bara í huga.

Mismunandi óvæntar hjónavígslur

Í veislu eða hátíðleg tilefni

Mynd af fjölskyldu á brúðardaginn.

Lalli og Hildur ákváðu með stuttum fyrirvara að gifta sig samhliða nafnaveislunni fyrir yngri soninn. Athöfnin var afslöppuð og falleg og svo héldu þau bara stóra veislu ári seinna! Great success!

Sumir kjósa að nýta nafngjafarveislur, stórafmæli eða jafnvel ættarmót til að draga saman alla ástvini sína og koma þeim á óvart. Þetta hefur þann kost í för með sér að yfirleitt eru flestir nánir vinir og ættingjar mættir á staðinn. Sum pör gefa í skyn í boðskortinu að fertugsafmælið sé meira en bara fertugsafmæli, svona til að búa fólkið sem lúsles leiðbeiningar undir herlegheitin, en koma hinum á óvart.

Í einrúmi eða litlum hóp

Sum pör gifta sig óvænt í einrúmi eða í litlu matarboði, bara með nánustu ættingjum. Það dregur úr því að það skapist óánægja með að þessi og hinn hafi ekki mætt eða verið boðinn og getur verið tilvalið fyrir þau sem vilja koma lagalegu hliðinni frá, en halda svo kannski óformlegri, stærri veislu síðar.

Án þess að láta makann vita

Já, það er svo sem alveg hægt að skipuleggja hjónavígslu sem er óvænt fyrir maka þinn líka. Það er þó oftast ekki ráðlegt, því að makinn getur brugðist illa við.  Ef þú ákveður að þetta sé í alvöru eitthvað sem þig -og ekki síst makann- dreymir um, þá skaltu ræða það mjög vel við bæði athafnarstjórann og einhvern sem þekkir maka þinn mjög vel.  Hér eru nokkrir þættir sem þú skalt hafa í huga:

 • Þið verðið að vera trúlofuð. Það kemur ekki til greina að gefa saman hjón sem ekki hafa haft tækifæri til að játast hvoru öðru með í það minnsta þeim hætti áður.
 • Það verður að vera amk klukkutíma fyrirvari.  Þú verður að gefa maka þínum andrými og tækifæri til að bakka út.  Það verður ekki gert fyrir framan áhorfendur, fyrir framan altarið.  Ef þetta er óvænt, þá verðurðu samt að vera tilbúin(n) að „spoila“ því rétt fyrir athöfn og athafnarstjórinn þarf að fá að ræða við maka þinn í einrúmi fyrir athöfn.
 • Þið verðið að vera skráð í sambúð. Til þess að geta sótt um tilskylda pappíra fyrir hönd maka þíns, þá þurfið þið að vera í sambúð.
 • Þú verður að vera alveg 100% viss um að þetta sé eitthvað sem makinn þinn vill, er sáttur við og spenntur fyrir.  Þú verður að þekkja makann þinn mjög vel og vita að viðkomandi hafi gaman af óvæntum hlutum, að viðkomandi sé sama þó hann hafi ekki almennilega stjórn á aðstæðunum og geti tekist á við þetta.  Þú verður að annaðhvort þekkja smekk makans þíns nógu vel til að geta valið fyrir hann brúðarfötin og allt hitt sem fylgir, eða þekkja maka þinn nógu vel til að vera handviss um að honum sé alveg sama.  Margar brúðir hefur dreymt um í hvernig kjól þær ætla að vera og margir brúðgumar eru ekki til í að dressa sig í hvaða jakkaföt sem er.

*Ég verð að viðurkenna að mér er meinilla við að nota þetta orð, „brúðkaup“, en þetta er sennilega nákvæmlega það sem þú gúglaðir til að enda hérna og stundum þurfum við bara að lúta í lægra haldi fyrir raunverulegum guði samtímans;  Mrs. Google.

Hugmyndir fyrir gæsanir, steggjanir og gaukanir

Gæsanir, steggjanir og gaukanir* eru skemmtilegar samkomur þar sem áherslan er að fagna þeim tímamótum að manneskjan er að ganga í hjónaband og þannig skilja við sitt einhleypa líf (þó íslensk hjónaefni séu reyndar yfirleitt búin að vera í sambandi og sambúð í talsverðan tíma þegar kemur að giftingu). Hér eru nokkrar hugmyndir að gæsunum og steggjunum auk nokkurra atriða sem skipuleggjendur gætu viljað spyrja sig.

Spurningar sem gott er að spyrja sig í aðdraganda gæsunar/steggjunar:

 

Á að niðurlægja eða njóta?

Sumt fólk hefur gaman að því að vera niðurlægt dálítið; látið gera eitthvað sem er út fyrir þægindarammann enda fellst í því ögrun og áskorun. Annað fólk hefur engan húmor fyrir því. Spyrjið ykkur hvor týpan gæsin ykkar eða steggurinn sé og miðið út frá því. Það er er allt í lagi að fara örlítið út fyrir þægindarammann hjá fólki en ekki gera það ef þú heldur að manneskjan njóti þess ekki og í öllu falli: Ekki ganga of langt. Leyfum fólki að minnast þessa dags með hlýju og gleði.

Blandað eða kynjaskipt?

Á Íslandi (sem og annarsstaðar) hefur tíðkast að hafa gæsanir og steggjanir kynjaskiptar. Það finnst mörgum gera stemminguna sérstaka og er auk þess svolítið praktískt; systur beggja hjónaefna mæta þá bara á einn viðburð og bræður sömuleiðis (í heteró-samböndum. Það gæti hins vegar þýtt að annað systkinakynið mætir í hvorugt í samkynja samböndum, sem er kannski dálítið útilokandi og skrítið). Það hefur hins vegar fæst í vöxt að virða þessar hefðir að vettugi og mörg pör hafa látið í ljós áhuga á að hafa sínar steggjanir/gæsanir blandaðar. Það kemur í veg fyrir að nánir vinir séu hafðir út undan vegna kyns síns og gefur öllum tækifæri til að vera með. Það er ekkert að því að spyrja hreinlega gæsina eða stegginn fyrirfram hvort þeim finnist meira spennandi að hafa sína gæsun/steggjun blandaða eða kynjaskipta.

Hugmyndir

Hér er samansafn af hugmyndum sem meðlimir facebookhópsins Brúðkaups hugmyndir hafa með hugstormun fundið upp á hinum ýmsu þráðum í gegnum árin.

Ókeypis

 • Ratleikur
 • Miðar með fyrirmælum
 • Minningarmiðar – allir skrifa eina minningu á miða og hjónaefnið á að giska hver skrifaði hvað

Ódýrt

 • Sund
 • Sjósund í Nauthólsvík
 • Pikknikk

Bara fyrir gæsina/stegginn/gaukinn (en ekki hópinn saman)

 • Jens Gullsmiður – hjónaefnið fær að smíða grip fyrir makann eða vini (ingibjorg@jens.is)
 • Stúdíó – hjónaefnið tekur upp lag
 • Nudd
 • Svifflug
 • Listflug
 • Rúntur á mótorhjóli

Hópefli (sem kostar)

Fyrir aktífu týpuna:
 • Bogfimi
 • Skotfimi
 • Laser Tag
 • Paintball
 • Fjórhjólaferð
 • Hellaferð
 • Riverrafting
 • Reykjavík Escape
 • Bubblubolti
 • Keila
 • Pole Fitness
 • Adrenalíngarðurinn
Fyrir listrænu týpuna:
 • Aqua Zumba
 • Zumba
 • Karaoke
 • Stúdíó – hópurinn tekur upp lag
 • Hláturjóga
 • Spuni (Improv Ísland)
 • Burlesque
 • Rocky Horror-dans
 • Magadans
 • Tinu Turner-dansar
 • Diskódans
 • Júróvisjóndansar
 • Broadway söngleikjadans
 • Bollywood dans
 • Afródans
 • Beyoncé dans

Marga þessa dansa er hægt að læra í Kramhúsinu og/eða hjá Margréti Maack.

Fyrir týpuna sem vill njóta:
 • Spa
 • Fish Spa
 • Bláa lónið
 • Float

Heimakynningar og heimsóknir

 • Blush
 • Sigga Klingenberg
 • Perró (málari sem málar með göndulnum á sér)
 • Beggi og Pacas
 • BDSM á Íslandi
 • Drag make over hjá Gogo Star

*Orðið „gaukun“ er tillaga að kynhlutlausu orði sem nýst getur meðal annars kynsegin fólki. Ég tek það fram að ég fann ekki upp á þessu heldur heyrði það einhversstaðar frá, en tillagan er góð og ég held mig því við hana.

 

Þessi grein birtist fyrst í facebook-grúppunni Brúðkaups hugmyndir.  Inngangurinn er skrifaður af mér, en hugmyndunum safnaði ég saman af hinum ýmsu þráðum í hópnum, þar sem þankahríð um gæsanir, steggjanir eða gaukanir fór fram. Ef þú ert með hugmynd af skemmtilegum uppátækjum fyrir svona gleðidaga, endilega sendu mér skeyti!

Hvaða pappíra þarf ég til að gifta mig?

Þú þarft að framvísa eftirfarandi gögnum, samkvæmt reglugerð 55/2013 frá Innanríkisráðuneytinu til þess að athafnarstjórinn (eða sýslumaður, presturinn, goðinn, imaminn, rabbíninn, zúíski galdralæknirinn) megi gifta þig:
 1. Fæðingarvottorð.
 2. Hjúskaparstöðuvottorð
 3. Persónuskilríki

Fæðingarvottorð

Hvað er fæðingarvottorð?

Fæðingarvottorð er pappír sem segir til um það hvar og hvenær þú fæddist, hverjir foreldrar þínir séu og svo framvegis. Ef þú fæddist á Íslandi geturðu fengið fæðingarvottorð hjá Þjóðskrá. Ef þú fæddist í útlöndum þarftu að fá fæðingarvottorð frá landinu sem þú fæddist í. Í slíkum tilvikum er best að hafa samband við þjónustuver Þjóðskrár í síma 515 5300.

Hvar fæ ég fæðingarvottorð?

Kannski áttu það frá því í gamla daga og það er allt í lagi. Ef ekki, þá þarftu að sækja um slíkt hjá Þjóðskrá. Það gerir þú hér. Þú þarft Íslykil eða rafræn skilríki til að skrá þig inn.

Hvað má það vera gamalt?

Alveg glænýtt eða jafngamalt og þú!

Hvað kostar það?

2.550 kr. stykkið (og þið þurfið bæði svoleiðis).

Hver er afgreiðslutíminn?

Allt að 4 virkir dagar og þú getur annað hvort sótt í afgreiðslu eða fengið sent heim til þín.

Get ég sótt um það fyrir makann minn?

Já, ef þið eruð skráð í sambúð.

Ertu alveg viss? Presturinn minn bað ekki um það!?

Samkvæmt reglugerð á fulltrúi trúfélags/lífsskoðunarfélags að biðja um það, þannig að væntanlega er þá viðkomandi eitthvað aðeins að fara á svig við lögin (sennilega af góðum hug til að spara þér pening). Auðvitað á eitt yfir alla að ganga, en endilega treystu þá bara þeim sem gefur ykkur saman og farðu eftir leiðbeiningum frá háni.

Hjúskaparstöðuvottorð

Hvað er hjúskaparstöðuvottorð?

Hjúskaparstöðuvottorð er vottorð sem sannar að þú sért ekki í hjónabandi núþegar, eða að þú sért búin(n) að skilja ef þú varst einhverntímann áður í hjónabandi.

Hvar fæ ég hjúskaparstöðuvottorð?

Þú þarft að sækja um svoleiðis hjá Þjóðskrá. Það geturðu gert hér. Þú þarft Íslykil eða rafræn skilríki til að sækja um vottorðið.

Hvað má það vera gamalt?

Hjúskaparstöðuvottorðið má vera 8 vikna þegar fulltrúi trúfélags/lífsskoðunarfélags kvittar undir svokallað könnunarvottorð. Það er því fínt að sækja um það svona mánuði fyrir brúðkaupsdaginn, eða fara bara eftir leiðbeiningum prestsins/athafnarstjórans/goðans/imamsins/rabbínans!

Hver er afgreiðslutíminn?

Hann er allt að 4 virkir dagar. Ef þú gleymdir þér og ert í tímaþröng, þá skaltu ekki láta senda pappírana heim til þín heldur sækja sjálf(ur/t) til Þjóðskrá.

Hvað kostar það?

2.550 kr. stykkið (og þið þurfið bæði svoleiðis).

Get ég sótt um það fyrir makann minn?

Já, ef þið eruð skráð í sambúð.

Persónuskilríki

Persónuskilríki með nafni hjónaefnis, ljósmynd og fæðingardegi til sönnunar, svo sem vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini. Þetta þarftu að mæta með á fundinn með fulltrúa trúfélagsins/lífskoðunarfélagsins eða sýslumanni. Kannski tekur viðkomandi ljósmynd eða ljósrit.
Þessi færsla birtist fyrst á facebookhópnum Brúðkaups hugmyndir, en er að öllu leyti skrifuð af mér.