Stigaspjöld fyrir seinni undanúrslit

Mikið hlakka ég til seinni undanúrslitanna í ár! Ég er náttúrulega miður mín, eins og öll þjóðin, yfir því að Jói sé smitaður og það þurfi að nota upptöku frá Gagnamagninu en ég hef raunar engar áhyggjur af flutningnum per se, því ég held að upptakan sé frábær. Ég óska Jóa góðs bata!

Mitt uppáhalds í þessum riðli eru án efa Sviss og Búlgaría. Sviss náði mér seint í fyrra, en við fyrsta hljóm í ár var ég algjörlega seld. Ég er reyndar ekki alveg viss um að hann púlli atriðið jafn vel og tónlistarmyndbandið; Ég vil auðvitað sýna fólki stuðning sem vill fara út fyrir þægindasviðið sitt, en ef þú ert slæmur dansari, þá er kannski ekki alveg málið að taka upp á því að dansa í dramatísku, áður sigurstranglegu, atriði. Victoría frá Búlgaríu heillaði mig upp úr skónum í fyrra og gerir það aftur í ár. Ég held að hún rústi þessum riðli með frábæru lagi, frábærum flutningi og frábærri sviðsetningu.

Ég ákvað að gera endurbætur á spjaldinu, og nú eru reitir til að krossa við þau 10 lög sem þú VILT að komist áfram, HELDUR að komist áfram og að lokum, þau sem RAUNVERULEGA komast áfram. Ég held að þetta virki betur en að hafa bara „SÆTI“.

Skál fyrir Júróvisjón!

Drykkjuleikur fyrir seinni undankeppnina 2021

Ofgnótt klisja er forsenda góðs júróvisjónatriðis en líka fyrirtaks inntak í drykkjuleik! Hér eru nokkur atriði sem ég held að tryggi rænuleysi fyrir hálfleik!