Wash with Similar Colours

Ég keypti mér regnbogalitaðan kjól fyrir einhverjum árum. Löngu áður en ég skilgreindi mig opinberlega sem tvíkynhneigða eða hinsegin yfirleitt, enda ein af þeim fjölmörgu sem fundu sig í gagnkynja sambandi, þar sem loddaralíðanin gagnvart hinseginleikanum læðist að. Ég held ég hafi alltaf talið mig hallast að karlmönnum aðallega, enda samfélagið fyrir löngu búið að stappa í mig að það væri auðveldast, eðlilegast og einfaldast. Hitt væri bara eitthvað svona hliðarspor sem ég gæti stigið endrum og eins. En allavega. Ég keypti mér samt regnbogakjól, enda annáluð stuðningskona hinsegin fólks og málefna þeirra. Þegar það kom að því að henda kjólnum í þvott kannaði ég rönguna á fallega, marglita, köflótta efninu í leit að þvottaleiðbeiningum. Á þvottamiðanum stóð: Wash with similar colours. Ég hló með sjálfri mér. Setti þetta jafnvel á Twitter. Hvernig á að þvo regnbogalitaðan kjól með flíkum í sama lit? Ég ákvað að þvo hann bara stakan. 

Ég mætti í kjólnum í starfsviðtal fyrir stöðu verkefnastjóra Hinsegin daga. Sjálfsörugg, enda með ferilskrá sem smellpassaði við starfslýsinguna, en líka með áðurnefnda loddaralíðan. Ekki alveg með svarið við því ef ég yrði spurð hvort ég væri hinsegin ef ég yrði spurð. Tja, ég myndi allavega ekki stilla Tinderið mitt bara á karla ef ég myndi skilja. Svo var ég ekkert spurð. 

Á því rúma ári sem ég hef gegnt þessu starfi hef ég sokkið mér í hinseginleikann. Lífið varð litríkara fyrir vikið. Ég hef unnið myrkrana á milli við að skipuleggja þessa stærstu hinsegin hátíð landsins, grátið yfir bakslaginu, lært svo ótalmargt, skilið hamingjusamlega, stillt Tinderið mitt á öll kyn, eignast vini og ótal kunningja, skrifað stefnur og skálað oftar en ég get talið. Félagslíf mitt, sem var fjörugt fyrir, hefur fíleflst og mörkin milli einkalífs og vinnu löngu máð. Ég hef varið heilum helgum með samstarfsfólki mínu við það að horfa á hinsegin raunveruleikasjónvarp, drekka pilsner og fylgjast með fólkinu á Laugaveginum, þræða helstu jaðarlistarviðburði sumarsins og bara almennt, hanga með hinsegin fólki. Samstarfsfólkið mitt; starfsfólk Samtakanna ‘78 og sjálfboðaliðar Hinsegin daga og annarra hinsegin félagasamtaka, eru vinir mínir í dag. Sum voru það áður. Og allan þennan tíma hefur mér fundist ég tilheyra. Vera samþykkt sem nákvæmlega sú sem ég er. Ég er ennþá með loddaralíðan, en hún fer minnkandi með hverjum mánuðinum sem ég þvæ mig með sömu litum. Þar sem ég umgengst fólkið sem er eins og ég. Bara þau sjálf. Akkúrat eins og þau eru. 

Ég er búin að kaupa mér annan regnbogakjól og hann er líka með þvottamiða sem gefur leiðbeiningar að þvo hann aðeins með sömu litum. Nú fara þeir tveir saman á silkiprógram, því mér þykir vænt um þá. Og ég vona að þeir verði fleiri.