Stormur, stígðu dans

Lag: Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez (Let it go úr Frozen). Texti: Inga Auðbjörg K. Straumland

Í kvöld er kalt og grámyglulegt

Ekki snjókorn er að sjá

Í móðunni er ekkert

Sem að mætir minni þrá

Því gráleit grundin gerir lítið fyrir þann

Sem að kafaldsbyl, krap’ og kafsnjó ann.

Breytist á himni birtustig

Eru augu mín að svíkja mig?

Minn kollur fyllist hugarró

Er þetta snjór?

Loksins snjór, jólasnjór!

Kuldinn kyssir mína kinn 

Loksins snjór, meiri snjó

Frostið frelsar, fyllir huga minn

Nú frið ég finn – í fannarbing

Stormur, stígðu dans

Svo snjókornin þyrlist hér allt um kring

Ég grýlukerti brúka sem hljóðnema við söng

Í ísklifri ég unni – mér ísköld dægrin löng

Tek útivist á næsta stig

Og bruna’á skíðum – risasvig

Ég renni úlpunn’upp í háls

Ég er frjáls!

Loksins snjór, jólasnjór!

Kuldinn kyssir mína kinn 

Loksins snjór, meiri snjó

Frostið frelsar, fyllir huga minn

Nú frið ég finn í fannarbing

Stormur, stígðu dans!

Í gegnum glerið glansar frostrósin svo flott

Og frosinn trefillinn er löngu fokinn langt á brott

Á svelli svíf ég eins og svanur til og frá

Mig fyllir freðin jörðin feiknaferðaþrá

Loksins snjór, jólasnjór!

Kuldinn kyssir mína kinn 

Loksins snjór, meiri snjó

Frostið frelsar, fyllir huga minn

Nú frið ég finn – í fannarbing

Stormur, stígðu dans

Svo snjókornin þyrlist hér allt um kring!

Jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki

Já, jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki

Í gjafaborðaöskjuna 

Ég skurðartækið sæki

Pakkaborða upp á punt

Ég inn í tækið kræki

Jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki!

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Ég fór í Pennann fyrr í dag

Og furðulostin stóð

Á starfsmann starði, nú var lag

En stóð svo þarna rjóð.

Því fyrir þetta fyrirbæri

Fann ég ekkert nafn

Sko, fann ég fyrir þessi skæri

Skaðrænt orðasafn…

Ó, jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki 

Í von um að hann skilji mig

Á starfsmanninn ég skræki

Til áherslu, ég baða höndum

málið strax ég flæki

Jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki!

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Ég kunni varl’að pakka pökkum, með pakkaband í hnút

Já, jólin voru eyðilögð, ég fríka næstum út!

Gafst næstum upp og gaf mér frí, ég fór og lagði mig

Svo fann ég þetta tæki og tek pakk’á næsta stig

Jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki

Jafnvel þótt að orðið eitt

Það stundum á mig sæki

En svo ég geti pakkann skreytt

Ég orðskrípinu hræki

Jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Um-dittle-ittl-um-dittle-I

Þó að orðið eitt og sér

Það þýði varla neitt

Í jólagjafahugleiðingum

Öllu getur breytt

En notaðu það sparlega

Þú elsku vinur minn…

Já,

Jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki

Jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki

Jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki

Jólapakkagjafaborðakrulluskurðartæki

Aftur heim

Lag: Alan Menken, Go the distance úr Hercules. Texti: Inga Auðbjörg K. Straumland

Einn á aðventu, óralangt í frá

Finn að fjarlægðin hún hefur fært mér svo margt

Þó mig umvefur, þessi mikla þrá

Þegar mæddur mæni, út í jólamyrkrið svart

Er ég horfi heim, yfir hafið bláa

Hugur minn hjá þeim, sem mitt hjarta heyrir til

Elsku eyjan mín, ó, ég sakna þín

Snýst minn hugur snarlega, nú heim ég halda vil

Alltaf út í heim, aflið dregur mig

Ég vil kanna slóðir, fá að skilja og sjá.

En nú loksins veit, er ég hugs’um þig

Það er fjarlægðin sem gerir fjöllin fagurblá

Held ég aftur heim, yfir hafið bláa

Hafna brátt hjá þeim, sem mitt hjarta heyrir til

Elsku eyjan mín, 

aftur sný til þín

Þornað hefur ferðaþorstinn, heim ég halda vil

Heyri hjartsláttinn úr norðri, hnígur vetrarsól,

Flökkusálin stefnir alltaf heim um jól.

Stjarnan vísar veg, yfir hafið bláa

Hún er hættuleg, háskaförin mín

Held ég heim á leið, yfir hafið bláa

Ráfað hef en nú ratað get ég aftur heim til þín 

Stjarnan vísar veg, heim nú stefni ég

Ráfað hef en nú ratað get ég aftur heim til þín 

Í jólafrí

Lag: How far I’ll go úr Moana, e. Lin-Manuel Miranda. Texti: Inga Auðbjörg K. Straumland

Ég hef hlakkað svo til aðvent’og jóla

Skussi, ég er í skóla,

Skelfilega þrái frí

Ég þarf bar’að þrauk’í nokkra daga

Því það myndi loks laga

Skólaþolsins skúraský

Verð nú loksins frjáls

Hverfur hrímkalt haust

Karpið sem ég kaus

Kæfir endalaust

Fegin fæ ég frí, finn ég gleð’á ný

Aðeins örskotsstund…

Lokaprófum ég lýk, gæfurík ég fagna 

og glöggið hita

Ég skúr’og strita

Ljósin öll verða rauð, laufabrauð, ét til agna

Og enn á ný

Undirbý að komast aftur í jólafrí

Ég hef hlakkað svo til næstu jóla

Dunda mér og heima dóla

Ég vil far’í jólafrí

Ég finn ljósin til að lýs’ upp gluggann

Sem að rekur burt skuggann

Og birta tekur enn á ný

Bak’og bardúsa,

kveikj’á kertunum.

Heilum hesthúsa

jólatertunum 

Höggva jólatréð, ég hef aldrei séð

Jafn gisið grey… 

Múskat, sykur og salt, hræri allt, í hveiti

Af piparkökum, heilt tonn við bökum

Eftir of langt hlé, skakkt og skælt jólatré, ég skreyti

Spring úr spennu:

Fæ mér möndlugraut

Föndra jólaskraut

Sofum út sérhvern dag, jólalag við syngjum

Öll litlu-jólin, og heims-um-bólin

Hlakka til jóladags, jólatréð við umkringjum

Brátt kemst ég í 

Mitt jólafrí!

Tenejól

Lag: We don’t Talk About Bruno úr Encanto eftir Lin-Manuel Miranda. Texti: Inga Auðbjörg K. Straumland

Stöndum ekki í stórræðum í ár

Stöndum ekki í þessu, – sko

Ég vil ekkert jólastress

 • Hún vill ekki jólastress

Ég fyrirlít að þurfa’ð fara,

í fleiri fjölskylduboð

 • Bévítans bannsettu boð

Leiðindalið sem mér líkar ei við

 • Frændur 

Meðalmennska, mögl og miðjumoð!

 • Mestmegnis allt Miðflokksmenn…

Loksins lausn í koll mér laust

 • Segð’okkur frá því!

Og upp á yfirborðið braust

 • Ég held ég væri alveg til í smá frí…

Hugmynd sem ég fékk í haust

 • Ekki fjármagnað, hvað með það…

Höldum jólin á Tenerif’í ár

Höldum jólin á Tene

Ég vil forðast frostið sem er nauðandi og nístandi

Get ekki heldur vindinn sem er gnauðandi og gnístandi

Heldur vil ég fá að finna heitan sand og sól.

Enn eitt jólaball, börnin grenja, skríkja,

Skrækir sker’í eyru, meira nammi sníkja

Skil varla’ð nokkur nenn’að halda jól,

Ég vil bara sól…

Skatan kæst, malt og appelsín,

Hvað við eldum næst, já kalkún eða svín

Heljar-havarí, ég vel Kanarí

Höldum jólin á Tenerif’í ár

Höldum jólin á Tene

Smákökur og sörur eru ekki mitt fag!

 • Nei, nei

Versla jólagjafirnar á aðfangadag

 • Nei, nei

Í fyrra át ég allt of mikið kjöt og fékk hjartaslag

 • Nei, nei!

Vil halda jólin með sand og sólarlag

Sæt ég verð sko með sundbolafar

Og svo sóla ég mig niðri á strönd

Alsæl verð ég með sand allstaðar

Sit með sangriuglasið í hönd

 • Fer ekk’í jólakött í ár

Sæt ég verð sko með sundbolafar

Niðr’á Amríkuströnd

Ullarnærfötin heima

Ó elsku suðræna sól

 • Hey, sys, settu sólkrem á mig…

Ó, suðræna sól, ó, suðræna sól

Ó, Tene

Förum strax til Tene

Bókum okkur flug strax til Tene

Byrjum að pakka og plana Tene 

 • Jólamatur, á Klörubar!
 • Vitlaus eyja!

Erindin endurtekin í skemmtilegri kakófóníu

Wash with Similar Colours

Ég keypti mér regnbogalitaðan kjól fyrir einhverjum árum. Löngu áður en ég skilgreindi mig opinberlega sem tvíkynhneigða eða hinsegin yfirleitt, enda ein af þeim fjölmörgu sem fundu sig í gagnkynja sambandi, þar sem loddaralíðanin gagnvart hinseginleikanum læðist að. Ég held ég hafi alltaf talið mig hallast að karlmönnum aðallega, enda samfélagið fyrir löngu búið að stappa í mig að það væri auðveldast, eðlilegast og einfaldast. Hitt væri bara eitthvað svona hliðarspor sem ég gæti stigið endrum og eins. En allavega. Ég keypti mér samt regnbogakjól, enda annáluð stuðningskona hinsegin fólks og málefna þeirra. Þegar það kom að því að henda kjólnum í þvott kannaði ég rönguna á fallega, marglita, köflótta efninu í leit að þvottaleiðbeiningum. Á þvottamiðanum stóð: Wash with similar colours. Ég hló með sjálfri mér. Setti þetta jafnvel á Twitter. Hvernig á að þvo regnbogalitaðan kjól með flíkum í sama lit? Ég ákvað að þvo hann bara stakan. 

Ég mætti í kjólnum í starfsviðtal fyrir stöðu verkefnastjóra Hinsegin daga. Sjálfsörugg, enda með ferilskrá sem smellpassaði við starfslýsinguna, en líka með áðurnefnda loddaralíðan. Ekki alveg með svarið við því ef ég yrði spurð hvort ég væri hinsegin ef ég yrði spurð. Tja, ég myndi allavega ekki stilla Tinderið mitt bara á karla ef ég myndi skilja. Svo var ég ekkert spurð. 

Á því rúma ári sem ég hef gegnt þessu starfi hef ég sokkið mér í hinseginleikann. Lífið varð litríkara fyrir vikið. Ég hef unnið myrkrana á milli við að skipuleggja þessa stærstu hinsegin hátíð landsins, grátið yfir bakslaginu, lært svo ótalmargt, skilið hamingjusamlega, stillt Tinderið mitt á öll kyn, eignast vini og ótal kunningja, skrifað stefnur og skálað oftar en ég get talið. Félagslíf mitt, sem var fjörugt fyrir, hefur fíleflst og mörkin milli einkalífs og vinnu löngu máð. Ég hef varið heilum helgum með samstarfsfólki mínu við það að horfa á hinsegin raunveruleikasjónvarp, drekka pilsner og fylgjast með fólkinu á Laugaveginum, þræða helstu jaðarlistarviðburði sumarsins og bara almennt, hanga með hinsegin fólki. Samstarfsfólkið mitt; starfsfólk Samtakanna ‘78 og sjálfboðaliðar Hinsegin daga og annarra hinsegin félagasamtaka, eru vinir mínir í dag. Sum voru það áður. Og allan þennan tíma hefur mér fundist ég tilheyra. Vera samþykkt sem nákvæmlega sú sem ég er. Ég er ennþá með loddaralíðan, en hún fer minnkandi með hverjum mánuðinum sem ég þvæ mig með sömu litum. Þar sem ég umgengst fólkið sem er eins og ég. Bara þau sjálf. Akkúrat eins og þau eru. 

Ég er búin að kaupa mér annan regnbogakjól og hann er líka með þvottamiða sem gefur leiðbeiningar að þvo hann aðeins með sömu litum. Nú fara þeir tveir saman á silkiprógram, því mér þykir vænt um þá. Og ég vona að þeir verði fleiri.

Framboð til formanns Siðmenntar 2023

Félagið okkar er eitt af því sem skiptir mig mestu máli í lífinu. Í þetta félag, hagsmuni þess, innviði, ásýnd, starfsfólk og starf set ég töluverðan hluta af minni orku og vinnu, af því að ég trúi því að Siðmennt eigi erindi. Erindi í samfélagi sem mismunar fólki miskunarlaust eftir lífsskoðunum. Erindi í samfélagi þar sem mörg dreymir um húmaníska, veraldlega og líflega valkosti þegar að þau standa á tímamótum. Erindi í samfélagi þar sem enn þarf að berjast fyrir jafnrétti, umburðarlyndi, gagnrýnni hugsun, mannréttindum, náttúrunni og samkennd. 

Ég bauð mig fram til starfa sem formaður Siðmenntar árið 2019 í kjölfar talsverðs öldugangs í félaginu. Mitt meginmarkmið hefur verið að auka fagleika, hjálpa félaginu að þroskast á þessu öra vaxtarskeiði og skapa meiri liðsheild innan okkar raða. Þetta hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig og óviðráðanlegar aðstæður eins og heimsfaraldur hafa gert okkur erfitt um vik. En ég held samt að margt hafi gengið vel hjá okkur. 

Félagið er enn sýnilegra en áður, bæði sem viðurkennt afl í hagsmunabaráttu húmanista og trúlausra einstaklinga, sem og af öllu því góða starfi sem við stundum á hverjum degi, í gegnum athafnir, fræðslu og umræðu. Hver einasti athafnastjóri og leiðbeinandi eru fulltrúar okkar gagnvart samfélaginu og þau gera mig öll svo óseigjanlega stolt, með frumleika sínum, metnaði og starfsgleði. Þá hefur okkur hefur tekist að skapa liðsheild, sér í lagi í hópi athafnastjóra, og leggjum nú áherslu á leiðbeinendur í fermingarfræðslu og almenna félaga. Við höfum innleitt nýja námskrá í fermingarfræðslunni, auk þess að bjóða upp á fjölbreyttara námsfyrirkomulag en nokkru sinni fyrr, með fermingarbúðum, skapandi námskeiðum og útivistarnámsleiðum sem hafa mælst mjög vel fyrir. Við fermum börn á fleiri stöðum á landinu en nokkru sinni fyrr og höfum innleitt aðgengisstefnu sem auðveldar aðgengi að þjónustu félagsins, bæði fyrir fólk um allt land og fyrir fólk með aðrar þátttökuhindranir, s.s. vegna fötlunar og íslenskukunnáttu. Við höfum þjálfað fleiri athafnastjóra sem stýra útförum, sem skapa ótrúlega persónulegar og fallegar athafnir sem skipta verulegu máli fyrir syrgjandi fólk. Við höfum tekið upp kolefnisjöfnun, nýja verklagsferla í virkni- og gæðamálum, siðareglur, hæfniviðmið athafnastjóra og farið í visitasíur um allt land.

Ég hef ekki gert neitt af þessu ein. Á skrifstofunni starfar frábær hópur kvenna sem eru ekki bara hamhleypur í störfum sínum heldur einn skemmtilegasti félagsskapur sem ég hef fundið mig í. Fulltrúarnir okkar í framlínunni, athafnastjórar og leiðbeinendur, leggja á sig ómælda vinnu í þágu félags og félagsfólks, og lætur sig hafa það að ganga upp á hæstu fjöll til að verða við sértækum óskum ástfanginna para, eða verja sunnudögunum sínum með syfjuðum unglingum á fjarfundi til að öll geti haft aðgengi að grípandi fermingarfræðslu. Auk þessa fólks eru sjálfboðaliðarnir, svo sem í stjórn og athafnaráði, sem standa af sér alla storma og móta framtíð þessa félags af alúð og metnaði. Þetta er fólkið sem stendur í brúnni og ég stend í mikilli þakkarskuld við.

Ég er ekki búin að gera allt sem ég sá fyrir mér að gera og þess vegna býð ég mig aftur fram. Þó ég hafi, eins og áður sagði, ekki gert neitt af þessu ein, þá horfi ég samt yfir síðustu fjögur ár og sé að líf mitt hefur verið algjörlega samofið félaginu. Ég ver þessari orku í þetta áhugamál mitt, af því að ég brenn fyrir félaginu, málaflokknum og fólkinu. Ég horfi á kirkjuþing á næturnar, vakta samráðsgátt stjórnvalda og brýt heilann í sturtu um það sem ég vil gera næst. Og ég er til í þennan pakka í eitt kjörtímabil í viðbót, af því að ég er bjartsýn á að á þeim tíma náist að leggja grunn að þeim atriðum sem ég vil sjá í framtíð félagsins; veraldlega valkosti í sálgæslu, árangur í hagsmunabaráttu og faglegri innviði. En svo er ég tilbúin að gefa kyndilinn áfram og einbeita mér að húmanisma í verki; að vera skítsæmileg manneskja og leggja rækt við athafnastjórann í mér, því ég veit ekkert betra en að fá að vera til staðar fyrir fólk á lífsins tímamótum. 

Ég er auðmjúk yfir hvatningu ykkar og stuðningi og þakklát fyrir tækifærið, sem hefur sannarlega hjálpað mér að verða sú manneskja sem ég er í dag. Takk.

Stigaspjald og júróbingó 2022

Upp er runninn, kjördagur og júróvisjón og allt í ljómandi gleði og glimmeri. Þið eruð vafalaust búin að hella poppinu í skálarnar og skreyta stofuna með gulbláum flöggum og maka augnlokin út í glimmeri, en ég er á eftir áætlun, eins og svo oft áður, í upphlut, nýbúin að kjósa og vinn sveitt við að setja saman bingóið góða.

Hér eru stigaspjöld fyrir lokakvöldið 2022, en bingóið kemur eftir smá:

Stigaspjöld

Júróbingó

The Eurovision Bingo – in English

Stigaspjöld og júróbingó – seinni undankeppni 2022

Ó, seinni undankeppni, með kúrekum og strippurum og gufupönki, serbískum handþvotti og sænskri hæsi. Ég heilsa þér og elska þig!

Hér eru stigaspjöld

Hér er júróbingó 

***

Bingo in (very badly google translated) German and rapidly conjured and thus imperfect English

Stigaspjöld og júróbingó – fyrri undankeppni

Jólin eru loksins komin!  Nú verður sko sungið og elskað og fagnað og flaggað!

Hér getur þú hlaðið niður stigaspjöldum fyrir fyrri undankeppnina og hér er júróbingó!