Þriðja vaktin

Lag: Surface Pressure úr Encanto, eftir Lin-Manuel Miranda. Texti: Inga Auðbjörg K. Straumland

Skúra gólfið, skreyta húsið 

Skipuleggja allt fjölskyldubrasið

Kveikj’á kertum, kaupa búsið

Komast að því að hálftómt er glasið

Skylt að baka sextán sortir

Skreyta kransinn og skrifa á kortið

Samverudagatal, aðventulagaval,

Kennaragjafir og kerti á grafir, sko

Því þriðja vaktin, þreytist í hvert sinn, sem nálgast jólin, þverra finn ég kraftinn!

Og önnur vaktin, er dynur á desember, dæmd til að trekkja upp taktinn!

Já, jólavaktin, sem sýgur úr mér mátt minn, svo kulnunina brátt finn!

Svo vanþakklátt, á allan hátt

Mér finnst það óréttlátt, já, þett’er óréttlátt

Og ef ég heyri hó, hó, hó hóað yfir grund –

Heldur vil ég ró, ró, ró, rólegheitastund

„Á instagram þú átt að virðast rétt um tvítugt“

„Skiptir engu máli þó hér sé skítugt“ 

Feðraveldið það finnst mér vera svo fokkt!

„Róum okkur“

Fagur söngur, fa-la-la, lagar ekki neitt

Ef jólatréð er ga-ga-ga-galið illa skreytt

„Bún’að gera bjórdagatal fyrir bóndann?“

„Ert það kannski þú sem að býrð til vandann?“

Hvernig væri að skipta byrðinni jafnt?

„Brostu bara“

Nýjasta vaktin: Álfur á hillu sem veður í villu, ráfandi rústar öllu.

Já, jólavaktin. Finn fullkomna gjöf handa þér, með SVÓT-mati snjöllu.

Og sveinavaktin; ég still’í síma bjöllu: Skó sett’í gluggasyllu.

Ég strauja sængurföt, sýð hangikjöt,

Ég linni varla látum en mér finnst ég samt svo löt

Mín kær, var okkur nær, að kalla þær,

Þær einar hæfar sem að markið setja of — hátt

Þær kröfur kræfar

Ég verð að standast

Ég örþreytt andast

Nú málið vandast

Því þörfin, er horfin, legg niður störfin!

Ég hef fengið nóg, nóg, nóg, mér er ekk’um sel

Stutta stráið dró, dró, dró en nú frelsi vel!

„Ætlar þú þig sjálfa að yfirkeyra?“

„Þú ættir bar’að biðja mig að gera meira“

Heldurðu að ég sé yfirmaðurinn þinn,

Kallinn minn?

Ekki lengur fönn, fönn, fönn, föndurkvöld hjá mér

Djörf í dagsins önn, önn, önn, önnur plön nú ég hef

Ég hafna verkaskiptingu sem konur tap’á

„Sammála, ættum kannski öll að slak’á“

Kröfunum kasta á brott og karlinum með

Ég kveð, ég treð, þriðju vaktinn’í vaskinn!