Brúðkaup, gifting eða hjónavígsla? Nokkur orð um orðanotkun
„Á íslensku má alltaf finna svar“ segir í ljóði Þórarins Eldjárn sem mörgum okkar er minnistætt úr auglýsingum Mjólkursamsölunar á síðustu öld. Það er auðvitað laukrétt, enda á hún alls konar orð yfir athafnir og atburði tengda því þegar tveir einstaklingar ákveða að bindast tryggðarböndum. Sum orðin eru góð og gegn á meðan önnur endurspegla hugsunarhátt fortíðarinnar og eiga minna erindi í dag. Ég reyni að nota sum orð meira en önnur, sem endurspeglast sumsstaðar á þessum vef og því vildi ég rita um það nokkur orð.
Af hverju notarðu ekki bara brúðkaup eins og allir aðrir?
Það er rétt; orðið „brúðkaup“ er sennilega það orð sem oftast er notað yfir hjónavígsluathöfn og er yfirleitt notað í samsettum orðum eins og „brúðkaupsveisla“ og „brúðkaupsafmæli“. Það er erfitt að ætla sér að halda uppi vef sem fjallar um hjónavígsluathafnir án þess að nota þetta orð, enda er þetta sennilega orðið sem tilvonandi brúðhjón slá inn í leitarvélar. Ég forðast hins vegar að nota það mjög mikið, enda fer merking orðsins fyrir brjóstið á mér. Brúður, sem er kvenkyns hjónaefni, er gott og gilt orð, en þegar því er skellt saman við orðið -kaup kárnar gamanið. Fyrr á öldum fylgdi misveglegur heimanmundur konunni þegar hún gekk í hjónaband og oftar en ekki gat hann haft áhrif á makavalið. Mér hugnast ekki að nota orðfæri sem vísar í að konan sé keypt eða gefin manni sínum eins og einhver eign sem hann getur ráðstafað að vild. Ég kemst þó ekki alltaf hjá því að nota það og því er orðið stöku sinnum að finna í titlum á pistlum þessa vefjar, en ég nota það aldrei í athöfnunum mínum.
En hvað með giftingu? Er eitthvað skárra að gefa konu en selja?
Nei, það er auðvitað alls ekki skárra að gefa konu en selja hana, en líklegra er þó að orðið vísi í orðið „gifta“, sem þýðir „gæfa“.
Og jafnvel þó orðið ætti uppruna sinn í það að konur væru gefnar eiginmönnum sínum, þá finnst mér það algerlega opið til nútímatúlkunar og tengi sjálf alveg við það sem gift kona að hafa gefist manni mínum og hann mér. Ég gef honum hlutdeild í mér og hann gefur mér hlutdeild í sér. Auk þess er orðið ekki kynjað, eins og orðið brúðkaup og hentar því fyrir pör af öllum toga. Gifting hentar líka ágætlega í samsett orð og ég hef til dæmis tamið mér að nota orðið „giftingarhátíð“ í stað orðsins „brúðkaupsveisla“. Best finnst mér þó að nota orðið „hjónavígsla“.
Hjónavígsla? Bíddu, eru vígslur ekki kirkjulegar? Þú ert ekki trúuð!
Ja, vissulega eru margar vígslur trúarlegar og skiljanlegt að fólk tengi einhvern helgiblæ við orðið. Það er þó svo að alls ekki allar vígslur séu trúarlegar. Ég er til dæmis vígður skáti og það hefur ekkert með guð og kirkjuna að gera. Mér finnst orðið bera hátíðlegan blæ og orðið „hjón“ fallegt yfir þessa sameinuðu einingu tveggja (nú, eða mögulega fleiri) einstaklinga.
Hvað á bara að stela öllu frá kirkjunni? Var ekki nóg að stela orðinu „ferming“?
Æji, er þetta ekki þreytt umræða? Sumt fólki líður eins og Siðmennt sé að stela einhverju frá kristinni trú með því að aðstoða fólk við að halda upp á tímamót í lífi sínu. Það er náttúrulega út í hött, því að allir menningarheimar hafa sína siði og venjur til að fagna hjónaböndum og manndómsvígslum og til að kveðja horfna ástvini. Kirkjan hefur engan einkarétt á ástinni og flestir hafa þörf fyrir slíkar athafnir, óháð trú. Varðandi orðið „ferming“, þá er það dregið af latneska orðinu confirmare, sem þýðir vissulega staðfesting, eins og kirkjan vísar í (þar sem ferming er eins konar staðfesting á skírninni), en þýðir líka að styðja og styrkjast. Það er því ekkert sem hindrar aðra en kirkjuna í að nota þetta orð yfir hvers konar manndómsvígslu (sem er náttúrulega líka kynjað og leiðinlegt orð) þar sem einstaklingurinn fær stuðning til að styrkja sig og þroska sem manneskja. Og eins og Hope Knútsson benti eitt sinn á í viðtali: Við skulum hætta að nota ferming, þegar Kirkjan hættir að nota orðið „jól“, sem upphaflega er auðvitað komið úr heiðni.