Færslur

Að skíra eða ekki skíra…

Á Íslandi virðist sagnorðið að skíra nánast vera samnefnari yfir það að gefa barni nafn.  Það er þó ákveðinn misskilningur falinn í þeirri orðanotkun, því að þó það sé hefð að gefa barni nafn við skírnarathöfn í kirkju, þá hefur skírnin sjálf lítið með nafngjöfina að gera og í raun er um tvo aðskilda hluti.

Hvað er skírn?

Skírn er heilagt sakramenti og formleg innganga inn í kristinn söfnuð hjá mörgum kristnum trúfélögum. Í gamla daga var talið mjög mikilvægt að skíra barn sem fyrst, ellegar kæmist það ekki inn í himnaríki ef það dæi.  Skírn fer fram með því að prestur eys vatni yfir höfuð barns.  Sumir kristnir söfnuðir skíra ekki börn, heldur ungmenni eða fullorðna og stundum er vatninu ekki aðeins ausið, heldur er manneskjunni dýft í vígt vatn að fullu eða hluta.

Á Íslandi og sumsstaðar annarsstaðar hefur myndast sú hefð að gefa barni nafn samhliða þessum viðburði.

Af hverju skírði ég ekki barnið mitt?

Þegar Starkaður minn fæddist kom aldrei til greina að ég skírði hann.  Við foreldrar hans erum trúlausir og þar að auki finnst mér bara alls ekki passa að barn sem ekki getur gefið samþykki sitt sé tekið inn í trúfélag með þessum hætti og þaðan af síður viðeigandi að þvo burtu syndir barns sem hefur ekkert gert af sér annað en að meina móður sinni að neyta parmaskinku í 9 mánuði.

Ég skal jafnvel splæsa í skírnartertu ef hann finnur það hjá sér 14 ára að vilja taka skírn.

Það þýðir ekki að Starri megi ekki taka trú þegar hann verður eldri.  Ef hann kýs svo, þá er honum frjálst að ganga í Þjóðkirkjuna, Ásatrúarfélagið, Bahá’í, Zúista eða hvað svo sem honum dettur í hug og ég skal jafnvel splæsa í skírnartertu ef hann finnur það hjá sér 14 ára að vilja taka skírn.  En ég ætla ekki að skrá hann í trúfélag, hvorki Siðmennt né annað, að honum óspurðum.

Er það ekki hræsni að skíra ekki barnið sitt en halda nafngjafarveislu?

Nei, það finnst mér alls ekki.  Kirkjan á engan einkarétt á hátíðarhöldum og mér finnst alveg tilefni að fagna fæðingu ungabarns með einhverjum hætti, þó það sé ekki með inntökuprófi í trúfélag.  Þess vegna ákváðum við að halda nafngjafarveislu og fengum athafnarstjóra frá Siðmennt til að halda ræðu í tilefni dagsins.  Ræðan fjallaði um strákinn okkar, uppeldi og húmaníska lífssýn, en henni fylgdi ekki nein trúarjátning eða skráning í lífsskoðunarfélag.  Þannig að Starri minn heldur út í lífið óskírður en reynslunni ríkari eftir að hafa haldið gott partý með öllum sem þykir vænt um hann!