Hvaða nöfn eru leyfð fyrir öll kyn?

Íslensk mannanafnalög eru ein þau ströngustu í heimi.  Í flestum löndum í kringum okkur hafa foreldrar tiltölulega frjálsar hendur þegar að kemur að nafngiftum barna sinna og þykir ekkert tiltökumál þó fólk af mörgum kynjum noti sama nafnið.  Ég hef áður skrifað aðeins um hvaða lögmálum nöfn þurfa að lúta til að hljóta náð fyrir augum Mannanafnanefndar, en nú langar mig aðeins að víkja að þeim nöfnum sem eru á báðum listum

,,Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.“

Samkvæmt íslenskum lögum skal gefa stúlku kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn.  Þetta eru náttúrulega talsvert úrelt lög að mínu mati, enda eru til fleiri en tvö kyn og fullkomlega fáránlegt að binda nafngiftir ungabarna við það hvers konar kynfæri þau eru með.  En þó er það svo, að þannig eru lögin og því er eina leiðin til að búa til kynhlutlaus nöfn að fá þau samþykkt inn á báða lista.  Þar til árið 2013 voru engin nöfn á báðum listum, enda túlkaði Mannanafnanefnd íslensk lög þannig að það mætti ekki.  Ung stúlka, Blær Bjarkardóttir Rúnarsdóttir, höfðaði þá mál gegn íslenska ríkinu um að fá að heita Blær, sem áður hafði bara verið á karlanafnalistanum, og að lokum úrskurðaði Héraðsdómur að hún mætti bara víst heita Blær.  Nafnið Blær var þá fært á kvenmannsnafnalistann og er, eftir því sem ég kemst næst, fyrsta nafnið sem fékk pláss á báðum listum.

Síðan þá hafa nokkur nöfn bæst við, en fleiri nöfnum verið hafnað, því þau hafa ekki staðist þröngt nálarauga mannanafnanefndar. Nú eru 8 nöfn á báðum listum.

Nöfnin sem eru á báðum listum:

  • Auður
  • Blær
  • Eir
  • Elía
  • Karma
  • Júlí
  • Júní
  • Maríon

Þetta eru nöfnin sem ég hef frétt af, en auðvitað gætu verið fleiri sem ég veit ekki um. Veist þú um nafn sem er á báðum listum? Endilega settu það í athugasemd!

Afhverju velur sumt fólk kynhlutlaus nöfn?

Íslenska er mjög kynjað mál.  Ekki einungis eru nöfn kynjuð, heldur einnig nafnorð og lýsingarorð, sem gerir nánast ómögulegt að tala algjörlega kynhlutlaust.  Sum nöfn eru mjög kynjuð og verða sennilega alltaf notuð af fólki öðru megin á kynjatvíhyggjuásnum.  Mér finnst til dæmis nokkuð ólíklegt að Inga eða Auðbjörg fari nokkurntímann á karlmannsnafnalistann, en hver veit.  Það er ekkert að því að nefna börnin sín kynjuðum nöfnum.  Ég nefndi til dæmis son minn Starkað Klemenz Sæmund, sem er frekar augljóslega karlmannsnafn og er mjög sátt við það.  Hann lætur mig svo bara vita ef hann uppgötvar einhverntíman að nafnið passi ekki við upplifun hans (eða hennar eða háns) af lífinu og ég skal glöð hjálpa til við að finna nýtt.  Hins vegar getur hentað sumum að nota kynhlutlaus nöfn.

Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að velja kynhlutlaus nöfn:

Valkostur fyrir kynsegin fólk

Þar til fyrir örfáum árum var ekki leyfilegt að nota kynhlutlaus nöfn, sem gerir til dæmis kynsegin fólki ómögulegt að velja sér nafn, vilji það skipta um nafn, sem gefur ekki upp eitthvað kyn sem einstaklingurinn samsamar sig ekki við.  Núna eru þessi örfáu nöfn í boði og líklegt að fleiri nöfn muni bætast á listann á næstu árum.  Vífguma, dulkynja og annað kynsegin fólk hefur þá tækifæri til að velja sér nafn sem endurspeglar betur kynvitund eða kyntjáningu viðkomandi.  Það er þó ennþá svo að ef að fólk hefur ekki aðgengi að ættarnafni (það er, á foreldra eða ömmur eða afa sem ber ættarnafn), þá verður það að nota kenninafn sem vísar til föður eða móður og tekur því -son eða -dóttur endingu.  Það er náttúrulega grábölvað og því þarf að breyta hið snarasta!

Vopn í baráttunni gegn kynjamisrétti

Sumir foreldrar velja börnum sínum kynhlutlaus nöfn til að draga úr vægi kynjatvíhyggjunnar og misréttis í lífi barnsins.  Ótal rannsóknir sýna alls konar breytur í viðmóti til fólks eftir kyni og því hægt að stýra viðmótinu aðeins með því að gefa barninu nafn sem gefur ekki endilega upp af hvaða kyni það er.  Þess vegna er kannski algengara í sumum löndum að konum sé gefið nafn sem var áður eingöngu notað af karlmönnum, því yfirleitt hallar kynjamisréttið í áttina að þeim.  Það gæti mögulega gefið þeim forskot í lífinu, á vinnumarkaðnum og þvíumlíku.

Það er auðveldara…

Í fyrsta lagi eru bara örfá nöfn á listanum. Færri nöfn, auðveldara að beita útilokunaraðferðinni.  Í öðru lagi geturðu valið nafnið áður en þú veist kynið á barninu.  Fljótlegt og þægilegt!

Svo eru þau bara falleg!

Það er líka fullkomlega gild ástæða til að gefa barninu sínu eitthvað af þeim nöfnum sem eru á báðum listum, enda eru þetta allt prýðilega falleg nöfn.