Aftur heim
Lag: Alan Menken, Go the distance úr Hercules. Texti: Inga Auðbjörg K. Straumland
Einn á aðventu, óralangt í frá
Finn að fjarlægðin hún hefur fært mér svo margt
Þó mig umvefur, þessi mikla þrá
Þegar mæddur mæni, út í jólamyrkrið svart
–
Er ég horfi heim, yfir hafið bláa
Hugur minn hjá þeim, sem mitt hjarta heyrir til
Elsku eyjan mín, ó, ég sakna þín
Snýst minn hugur snarlega, nú heim ég halda vil
–
Alltaf út í heim, aflið dregur mig
Ég vil kanna slóðir, fá að skilja og sjá.
En nú loksins veit, er ég hugs’um þig
Það er fjarlægðin sem gerir fjöllin fagurblá
–
Held ég aftur heim, yfir hafið bláa
Hafna brátt hjá þeim, sem mitt hjarta heyrir til
Elsku eyjan mín,
aftur sný til þín
Þornað hefur ferðaþorstinn, heim ég halda vil
–
Heyri hjartsláttinn úr norðri, hnígur vetrarsól,
Flökkusálin stefnir alltaf heim um jól.
–
Stjarnan vísar veg, yfir hafið bláa
Hún er hættuleg, háskaförin mín
Held ég heim á leið, yfir hafið bláa
Ráfað hef en nú ratað get ég aftur heim til þín
Stjarnan vísar veg, heim nú stefni ég
Ráfað hef en nú ratað get ég aftur heim til þín